Fabio Capello, þjálfari Roma, er ekki að skafa utan af skoðunum sínum. Undanfarið hefur komið í ljós að allnokkrir S-amerískir leikmenn liða í Serie A eru með falsað vegabréf og því ekki löglegir með liðum sínum. Capello er ekki í vafa um hver réttmæt refsing er: Þar sem Juan Sebastian Veron, miðvallarleikmaður núverandi meistara Lazio, er einn hinna umræddu leikmanna, ætti að taka öll stig af Lazio sem liðið vann sér inn með hann í liðinu á síðustu leiktíð. Nokkuð ljóst að án þeirra stiga hefði liðið aldrei orðið meistari enda Veron alltaf valinn í liðið. Sergio Cragnotti forseti og Dino Zoff þjálfari Lazio eru auðvitað brjálaðir vegna ummæla Capello, en hafa þó engin önnur mótrök en þau að þetta komi Capello ekki við. Lítur út fyrir að sálfræðin sé að virka hjá Capello…