Fylkismenn sigruðu í gær Stjörnuna, 5:1. Þessar tölur endurspegla þó ekki nákvæmlega gang leiksins, en Stjörnumenn áttu oft laglegar sóknir án þess að uppskera eitthvað. Fylkismenn eru því enn öruggir á toppnum, með fjögurra stiga forskot á KR, sem er í öðru sæti.
Leikurinn fór fjörlega af stað og eftir korters leik voru Árbæingar komnir í 2:0 með mörkum Kristins Tómassonar og Sævars Þórs Gíslasonar. Staðan var 2:0 í hálfleik og var það lengi fram eftir síðari hálfleik. En á 79. mínútu leiksins skoraði Gylfi Einarsson glæsilegt mark með skalla af u.þ.b. 16 m færi. Stjörnumenn náðu að klóra í bakkann tveim mínútum síðar þegar Rúnar Páll Sigmundsson skoraði fallegt mark úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Fylkismenn voru ekki hættir og fjórum mínútum fyrir leikslok skoraði Sævar Þór Gíslason með lélegu skoti, sem Zoran Stojadinovic, markvörður Stjörnunnar missti klaufalega inn í markið. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Fylkismenn dæmda vítaspyrnu, sem Sævar Þór skoraði úr og fullkomnaði þar með þrennuna.