skagmenn tapa aftur Það var að duga eða drepast fyrir Skagamenn fyrir leikinn gegn ÍBV því það var ljóst að sigur í þessum leik þýddi að liðið myndi koma sér skemmtilega í toppbaráttuna en hins vegar ef tap yrði í leiknum yrði botnbaráttan fyrir hendi. Því miður urðu það engin stig sem Skagamenn fengu í kvöld og því er það botnbaráttan sem tekur við. En Skagamenn leggja ekki árar í bát heldur halda áfram og ná sér úr þessari óheppnislægð sem þeir eru í.

Skagamenn voru búnir að mæta ÍBV einu sinni í ár og það var í deildarbikarnum og það á Akranesvelli í maí. Sá leikur fór fram í miklu roki og í gríðarlegum kulda þar sem heimamenn fóru með sigur á hólmi, 2:0

Fyrri hálfleikur:

1:0

Það var á 23. mín. að fyrsta mark dagsins leit ljós. Hjalti Jóhannesson vann boltann á vítateigshorni Skagamanna, brunaði upp að endalínu og lagði hann fyrir og þar var Atli Jóhannesson mættur og náði að pota boltanum milli Þórðar Þórðarsonar í markinu og eins varnarmanns.

Á 45. mín. fékk Stefán Þórðarson að líta gult spjald sem mörgum fannst ekki eiga að verðskuldað en eftir að hafa rifist aðeins í dómaranum fékk Stefán strax sitt annað gula spjald og varð því að yfirgefa leikvöllinn. Því var erfitt fyrir Skagaliðið að halda áfram einum færri.



Seinni hálfleikur:

2:0

Eyjapeyjar komu greinilega grimmir til síðari hálfleiks því strax á 49. mín. skoraði Atli sitt annað mark fyrir ÍBV með skalla inni í teig eftir hornspyrnu.

3:0

Ólafur Þórðarson reyndi allt sem hann gat til að bæta sóknarleik Skagamanna og á 53. mín. skipti hann Ellerti Jóni Björnssyni útaf fyrir Kára Stein Reynisson. En það virtist ekki vera að ganga því að á 56. mín. stakk Atli Jóhannesson boltanum inn á Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem setti boltann á snyrtilegan hátt í netið hjá Skagamönnum.

Það sem eftir lifði leiks voru Skagamenn að reyna að klafsa sig í gegnum þétta vörn ÍBV en aðeins einu sinni náðu þeir virkilega að komast í marktækifæri. Það var á 74. mín. þegar að Aleksandar Linta átti sendingu inn fyrir teig ÍBV og beint á kollinn á Kára Stein Reynissyni sem lagði hann beint fyrir fætur Hjartar Hjartarsonar. Hjörtur hinsvegar náði ekki að nýta færið þar sem hann var staddur beint fyrir framan Birki Kristinsson, markmann ÍBV. Þar fór gott tækifæri forgörðum.



Því miður var því 0:3 tap gegn ÍBV sem virðist vera á mikilli siglingu um þessar mundir. Nú er bara fyrir Skagamenn að bíta á jaxlinn og ná að rífa sig uppúr þessari lægð sem liðið virðist vera í, það er hægt og nú er bara að sýna það og sanna.