Bjarni Guðjónsson, leikmaður Íslendingaliðsins Stoke, komst aldeilis í hann krappann þegar pabbi hans tók hann af velli í leiknum gegn Wigan um helgina. Strákurinn tölti í mesta sakleysi að búningsherbergjum Stoke þar sem hann væntanlega ætlaði að fá sér gott bað og nudd. Þá skiptir engum togum að út stekkur Darren Sheridan, leikmaður Wigan, og hann tekur Bjarna fastataki og byrjar að láta höggin dynja á honum. Öryggisverðir voru þó fljótir til og náðu að skilja þá í sundur áður en Bjarni fékk tækifæri til að svara fyrir sig.

Ástæða þess að Sheridan réðst á Bjarna í göngunum var sú að hann var rekinn út af nokkrum mínútum áður fyrir að gefa Bjarna olnbogaskot. Hann hélt þó fram sakleysi sínu og ætlaði augljóslega að launa Bjarna lambið gráa er hann fór af velli.

Atvikið hefur verið kært til aganefndar enska knattspyrnusambandsins, en þó ekki af Stoke því þeir sáu enga ástæðu til að fylgja þessu eftir.

Af hverju ætli það sé? Jafnvel að Bjarni hafi óhreint mjöl í pokahorninu? Það vitum við ekki og því munum við ekki tjá okkur um slíkt.
-axuz