Þá er það orðið ljóst hver tekur við Safamýrarstórveldinu, en það er enginn annar en Steinar Guðgeirsson sem spilaði lengi vel með liðinu en lagði skóna á hilluna árið 2001.

Þetta kemur vafalaust mörgum á óvart þar sem að nafn Steinars hefur ekki verið mikið í umræðunni um hugsanlegan arftaka Kristins R. sem var rekinn eins og líklegast flestir vita.

Hér er svo það sem heimasiða FRAM, www.fram.is sagði um málið



Stjórn FRAM Fótboltafélags Reykjavíkur hefur gengið frá ráðningu Steinars Þórs Guðgeirssonar í starf þjálfara FRAM. Samningurinn við Steinar gildir út yfirstandandi keppnistímabil. Steinar mun taka við eftir leik Ír og FRAM í VISA bikarnum.

Steinar, sem er 32ja ára gamall, er FRAMari í húð og hár og lék með meistaraflokki FRAM frá 18 ára aldri þar til hann lagði skóna á hilluna árið 2001, ef eitt keppnistímabil er undanskilið. Steinar var valinn efnilegasti leikmaður efstu deildar árið 1990, en það ár varð hann einmitt Íslandsmeistari með FRAM. Steinar er einn leikjahæsti leikmaður FRAM í efstu deild og var fyrirliði liðsins og leiðtogi um árabil.

Steinar þekkir innviði FRAM vel. Hann þjálfaði yngri flokka liðsins, sat í stjórn félagsins og hefur gegnt ábyrgðarstöðum bæði fyrir FRAM og KSÍ, ásamt því að vera einn af eigendum Lögfræðistofu Reykjavíkur.

FRAM heldur með þessari ráðningu áfram þeirri venju að ráða þjálfara úr hópi fyrrverandi leikmanna, en undanfarin 20 ár hafa þjálfarar liðsins ætíð komið úr þeim hópi, með einni undantekningu, þegar Ásgeir Sigurvinsson stýrði liðinu fyrir áratug.

Stjórn FRAM býður Steinar velkominn til starfa á ný fyrir FRAM og væntir mikils af samstarfinu við hann á keppnistímabilinu.