AC Milan hefur gert tilboð í Rivaldo, leikmann Barcelona, upp á 3,5 milljarða íslenskra króna en því var hafnað af forráðamönnum spænska félagsins. Joan Gaspart, nýkjörinn forseti Barcelona, sagði í útvarpsviðtali í morgun að útilokað væri að Rivaldo yrði seldur þó sjö milljarðar króna yrðu boðnar í hann.

Rivaldo á þrjú ár eftir af samningi sínum við Barcelona en hann hefur ákvæði um að berist tilboð upp á 6,7 milljarða megi hann fara. Sams konar ákvæði varð til þess að Luis Figo fór til Real Madrid en upphæðin var þó töluvert lægri - 4,5 milljarðar.