Duff eða Kewell?


Stóra spurningin þessa dagana í leikmannakaupum virðist vera: Hvort verður Damien Duff eða Harry Kewell keyptur? Enskir fjölmiðlar greindu frá því nýlega að ef Blackburn myndi ekki lækka þennan 15 milljón punda verðmiða sem er settur á hann þá muni Houllier snúa sér að því að reyna að fá Harry Kewell. Og nýjustu fréttir af viðræðum Kewell við Leeds gera spennuna ekki minni í þessum málum.

Nú hefur verið haft eftir John McKenzie stjórnarformanni Leeds að hann sé enn sannfærður um að Harry Kewell muni skrifa undir nýjan samning við félagið, en núgildandi samningur rennur út á næsta ári. “Við vitum öll hvað gerðist hjá Lee Bowyer þegar hann gat farið fyrir nánast ekki neitt og við getum ekki látið það gerast aftur.”

Þetta virðist þýða að Kewell verði settir þeir afarkostir að ef hann neitar að skrifa undir nýjan samning verður hann settur á sölulista. Talið er að hann væri falur fyrir aðeins um sex milljónir punda vegna þess hve lítið er eftir af samningnum hans og það myndi ekki minnka freistingu Houlliers á að kaupa hann ef ekkert verður af því að hann nái að klófesta Duff.