Fyrir nokkru lauk úrslitaleik ensku FA bikarkeppninnar. Arsenal bar 1-0 sigur úr býtum í opnum og skemmtilegum leik gegn Southampton.

Leikurinn opnaðist strax eftir 15 sekúndur þegar Thierry Henry komst einn í gegnum vörn Southampton en Anti Niemi var vanda sínum vaxinn í markinu og kom í veg fyrir að Arsenal kæmist yfir. Eftir þetta varð leikurinn mjög opinn og mestu furðu vakti hversu mikið leikmenn Southampton sóttu, enda með töluvert lakara lið.

Liðin sóttu álíka framan af fyrri hálfleik en á 37. mínútu dró til tíðinda. Arsenal menn höfðu átt langa sókn að marki Southampton þegar Henry fékk boltann fyrir utan teig. Hann gaf boltann á Bergkamp sem framlengdi hann á Ljungberg sem reyndi skot en fékk hann svo af einskærri heppni í sig aftur. Boltinn hrökk til Robert Pires rétt fyrir utan markteig og kláraði hann færið snyrtilega, 1-0 fyrir Arsenal. Arsenal menn sóttu nánast látlaust það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og var Pires ekki langt frá því að bæta öðru marki við örfáum mínútum fyrir te.

Í seinni hálfleik var alveg ljóst að Gordon Strachan hafði messað vel yfir sínum mönnum því þeir komu mjög grimmir til leiks. Þeir sóttu mikið en náðu þó ekki að skapa sér nógu mörg færi. Minnstu munaði að Southampton menn næðu að jafna leikinn þegar Seaman varði boltann með fram línunni eftir skot frá Telfer.

Arsenal voru oft nálægt því að skora en Niemi og Jones stóðu sig vel og vörðu oft á tíðum snilldarlega frá Skyttunum.

Undir lok leiksins fór Arsenal að spila virkilega leiðinlegan fótbolta. Þeir héldu boltanum í vítateigshorni Dýrlingana síðustu mínúturnar. Southampton menn náðu svo boltanum og geystust fram. Minnstu munaði að James Beattie næði að skora á lokasekúndum en Ashley Cole varði boltann með hendinni á marklínunni.

Lyktir leiksins urðu því 1-0 fyrir Arsenal. Verðskuldaður sigur sem hefði samt hæglega getað endað hinum megin. Þó er að einhver sárabót fyrir okkur Southampton menn að við komumst í UEFA keppnina á næsta tímabili.

Til hamingju Arsenal menn.