Gerard Houllier stjóri Liverpool hefur byrjað að selja nokkra leikmenn í herbúðum Liverpool en í gær tilkynnti hann að portúgalski varnarmaðurinn Abel Xavier hafi verið leystur undan samningi við félagið. Xavier hefur verið á láni undanfarið hjá Galatasaray en þarf nú ekki að snúa aftur til Liverpool. Houllier sagði í gær að ásamt Xavier yrðu samningar ekki endurnýjaðir við Patrick Berger, Vegard Heggem og Bernard Diomede. Xavier kom til liðsins fré erkióvinunum í Everton í byrjun síðasta árs en hann var lánaður til Galatasaray í janúar.

Berger lék aðeins fjóra leiki með liðinu á tímabilinu og þar með talinn lokaleikinn gegn Chelsea en meiðsli höfðu mikil áhrif á síðustu misseri hjá honum. Tékkinn hafði verið í sjö ár hjá félaginu.

Heggem sem einnig hefur barist mikið við meiðsli er á leið heim til Noregs þar sem hann mun líklega fara til Rosenborg. Hann lék sinn síðasta alvöru leik með liðinu fyrir þremur tímabilum en frægt varð þegar hann vann miða á leik með Liverpool í getraun hjá Norsku dagblaði.

Diomede hefur lítið fengið að spila með Liverpool síðan hann kom frá Auxerre fyrir þrjár milljónir punda árið 2000. Hann var lánaður til franska 1. deildarfélagsins Ajaccio í janúar.

Houllier sagði í gær að keyptir yrðu leikmenn í stað þeirra sem fara þrátt fyrir peningalega tapið sem félagið varð fyrir með því að vinna sér ekki sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Kveðja kristinn18