Íslenska landsliðið í knattspyrnu setti upp ágæta sýningu er það vann Möltu 5:0 á Laugardalsvelli. Íslensku strákarnir voru betri á öllum sviðum og léku ágæta knattspyrnu fyrir um 2600 áhorfendur sem fylgdust með leiknum. Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari viðraði nokkrar nýjar hugmyndir um leik liðsins sem margar hverjar heppnuðust ágætlega. Liðið þarf þó að slípa ýmis atriði í leik sínum ef viðunandi árangur á að nást í undankeppni heimsmeistaramótsins í haust.