Héðan og þaðan (Landsliðshópurinn o.fl.) Leikmenn ÍA og Aftureldingar tóku forskot á sæluna á þriðjudagskvöldið í Deildabikarnum þegar leikur þeirra var spilaður á grasi á Tungubökkum í Mosfellsbæ. Var þetta fyrsti grasleikur ársins og sigruðu Skagamenn hann örugglega 5-0.
__________________________

Fylkir sigraði Grindavík 1-0 í gær. Arnar Þór Úlfarsson notaði líkamshluta sem yfirleitt er nýttur í öðrum tilgangi en að skófla tuðrunni í netið til að skora eina mark leiksins. Það kom eftir góða fyrirgjöf Hauks Inga.
__________________________

Fylkismenn gera sér vonir um að fá Helga Val Daníelsson til liðs við sig í sumar. Þriggja ára samningur hans við Peterborough rennur út á árinu. Það er hins vegar túlkunaratriði hvort samningur hans rennur út í vor eða síðar á árinu. Helgi heldur því fram að samningurinn klárist í vor en Peterbrough heldur öðru fram. Helgi Valur er öllum hnútum kunnugur hjá Fylki en hann er uppalinn hjá félaginu og lék með því síðast sumarið 2000.
__________________________

Finnur Kolbeinsson er byrjaður að æfa að nýju með Fylki en meiðsl í hásin hafa komið í veg fyrir að hann gæti æft á undirbúningstímabilinu. Rifa myndaðist í hásin sem illa gekk að fá til að gróa en eftir að fótur Finns var settur í spelku hafa komið í ljós batamerki. Á tímabili voru forráðamenn Árbæjarliðsins frekar svartsýnir á að Finnur gæti yfirhöfuð leikið í sumar en þeir segjast nú gera sér vonir um að hann geti verið með. Finnur var kjörinn besti knattspyrnumaður Úrvalsdeildarinnar í fyrra.
__________________________

Þróttarar eru nú staddir í London og gerðu í vikunni jafntefli við varalið Watford. Leikurinn var leikinn á æfingasvæði þeirra Watfordmanna og fengu bæði lið nokkur góð færi sem þeim tókst ekki að nýta. M.a. átti Hjálmar Þórarinsson skot í stöng og hann og Sören fengu báðir góð færi en allt kom fyrir ekki.
__________________________

Ívar Ingimarsson hefur framlengt lánssamning sinn við Brighton til loka leiktíðar. Ívar kom til Brighton í nóvember frá Wolves en lánssamningurinn rann út á laugardag.
__________________________

Leyfisráð KSÍ samþykkti á fundi sínum í fyrradag leyfi til þátttöku í Símadeild karla 2003 til handa öllum umsækjendum, þ.e. þeim 10 félögum sem unnið höfðu sér rétt til að leika í deildinni. Félögin sem eru handhafar fyrstu leyfa útgefnum skv. leyfiskerfi KSÍ eru: FH, Fram, Fylkir, Grindavík, ÍA, ÍBV, KR, KA, Valur og Þróttur.
__________________________

Svo kann að fara að leikur Íslandsmeistara KR og Færeyjameistara HB í knattspyrnu karla, verði á KR-vellinum 27. apríl. Fyrirhugað er að hann fari fram í Egilshöll en á heimasíðu KR var skýrt frá því í gær að vegna góðrar tíðar í vetur væri KR-völlurinn í mjög góðu ástandi og því möguleiki á að spilað yrði þar. Leikið verður um Atlantic-bikarinn en í fyrra var byrjað að leika um hann - ÍA sigraði B36 í Þórshöfn, 2-1.
__________________________

Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, hvetur Árna Gaut Arason landsliðsmarkvörð til að skipta um félag í sumar. Árni Gautur hefur verið settur á varamannabekkinn hjá Rosenborg og í samtali við norska blaðið Adresseavisen í gær sagðist Atli ekki geta lofað Árna því að hann héldi stöðu sinni sem aðalmarkvörður íslenska landsliðsins ef hann fengi ekkert að spila hjá sínu félagsliði.
__________________________

Guðni Bergsson var valinn í landsliðshóp Íslands sem mætir Finnum í vináttulandsleik 30. apríl næstkomandi. Leikurinn fer fram á Pohjola leikvangnum í Vantaa í Finnlandi og hefst klukkan 14:00. Val Atla á Guðna rennir stoðum undir þær vangaveltur að Guðni muni leika tvo landsleiki Íslands í júní.

Markmenn
Árni Gautur Arason, Rosenborg
Birkir Kristinsson, ÍBV

Aðrir leikmenn:
Rúnar Kristinsson, Lokeren
Guðni Bergsson, Bolton
Arnar Grétarsson, Lokeren
Hermann Hreiðarsson, Charlton
Þórður Guðjónsson, Bochum
Lárus Orri Sigurðsson, W.B.A
Brynjar Björn Gunnarsson, Stoke
Arnar Þór Viðarsson, Lokeren
Heiðar Helguson, Watford
Eiður Smári Guðjohnsen, Chelsea
Ívar Ingimarsson, Brighton
Marel Baldvinsson, Lokeren
Jóhannes Karl Guðjónsson, Aston Villa
Gylfi Einarsson, Lilleström
Indriði Sigurðsson, Lilleström