Knattspyrnulið Fram er nú í Farum í Danmörku við æfingar og keppni. Fram hefur staðið sig mjög vel á undirbúningstímabilinu og liðið verið að ná vel saman. Með þeim í Danmörku er hollenskur leikmaður að nafni Jeroen van Wetten. Hann er á mála hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu Roosendaal og hefur skorað mikið fyrir varalið félagsins. Í þessari ferð ætla Framarar að skoða þennan 23.ára framherja sem samkvæmt mínum upplýsingum hefur skorað 15 mörk í 16 leikjum varaliðsins. Mjög líklegt er talið að Fram muni gera við hann samning fyrir sumarið. Hann hefur aðeins fengið tækifæri í tveimur leikjum með aðalliði Roosendaal í úrvalsdeildinni í vetur. ÍBV reyndi að fá van Wetten til reynslu en þær áætlanir runnu út í sandinn.

Brynjar Jóhannesson situr í meistaraflokksráði Fram, hann hafði þetta að segja við Morgunblaðið: “Við ætlum að skoða þennan leikmann, sem við vitum í sjálfu sér mjög lítið um. Okkur vantar sóknarmann þar sem útlitið er ekki gott með Þorbjörn Atla Sveinsson, sem hefur ekki getað æft með okkur undanfarna sex mánuði vegna meiðsla.” Jeroen van Wetten er því hugsaður til að fylla upp í skarð Þorbjarnar en fyrir hjá Fram eru framherjarnir Andri Fannar Ottóson, Kristinn Tómasson og Kristján Brooks.