David Robert Joseph Beckham fæddist 2. maí 1975 í Leytonstone í London. Hann spilar eins og flestir vita fótbolta með besta liði heims (að mati margra), Manchester United. Staða hans er á hægri kantinum. Hann er 180 sm á hæð og vegur 67 kíló. Foreldrar hans eru þau Ted Beckham kokkur og Sandra Beckham hárgreiðslukona. Hann á tvær systur, Lynne sem er eldri en hann og Joanne sem er yngri. Á barnsárum sínum var David í Chase Lane Junior skólanum og svo fluttist hann í Chingford High skólann. Hann hefur alla tíð haft gríðarlegan áhuga á fótbolta. Þegar hann var strákur fór hann oft út með Joanne systur sinni að leika sér í fótbolta. Hann sagði henni að standa kyrr og svo lék hann allt í kringum hana og hún vissi ekkert hvað hún átti að gera. Hún lærði samt og eftir dálítinn tíma var hún farin að veita honum harða samkeppni.

Ungur hæfileikamaður

Þegar David var 8 ára spilaði hann með Ridgeway Rovers liðinu. Það var þá sem faðir hans, sem þjálfaði liðið, uppgötvaði hvað sonur hans hafði mikla fótboltahæfileika. Þegar David var 11 ára horfði hann á þáttinn „Blue Peter“ í sjónvarpinu. Í einu auglýsingahléinu kom kynning á Bobby Charlton knattspyrnu-skólanum fyrir krakka á hans aldri. En það átti að halda hæfileikamót um allt land og sigurvegararnir fengu að fara í skólann á Old Trafford. David, þessi mikli stuðningsmaður Manchester United, var ekki lengi að hlaupa inn í eldhús og spyrja mömmu sína hvort hann mætti „plís” taka þátt í mótinu. Hún leyfði honum það, og afi hans borgaði fyrir hann 15.000 króna þátttökugjald. David segist aldrei munu geta þakkað honum nóg.David vann í keppninni en við verðlaunaafhendinguna á Old Trafford fannst hann ekki fyrr en eftir langa leit – þar sem hann sat úti í horni og horfði á Tottenham-leik.




Treyja númer 24
David hætti í Chingford High skólanum þegar hann var 16 ára til þess að ganga til liðs við Manchester. Þangað kom hann 8. júlí 1991. Hann spilaði þó ekki sinn fyrsta leik með liðinu fyrr en 23. september 1992 en það var útileikur gegn Brighton og Hover Albion í Rumbelows bikarnum. Hann kom inn á sem varamaður fyrir þáverandi aðal hægrikantmann liðsins, Andrei Kanchelski. Hann var ekki valinn í aðallið Manchester United fyrr en í september 1994, og fyrsti deildarleikur hans var svo 2. apríl 1995 þegar hann spilaði gegn Leeds á Old Trafford.Fyrir þann tíma hafði hann spilað um stund með hinu feikisterka unglingaliði Manchester United og með því vann hann unglingadeildina árið 1992 og lenti í öðru sæti 1993. Auk þess hafði hann verði sendur í fimm leikja lán til Preston North End. Í þeim skoraði hann tvö mörk. Hann var svo orðinn fastamaður í aðalliðinu á 95/96 tímabilinu. Alveg fram að tímabilinu 96/97 lék David í treyju númer 24. Þá fékk hann treyju númer 10 og tímabilið 97/98 fékk hann loksins draumatreyjuna sína númer 7.





Leikmaður ársins
Leiktímabilið 96/97 var mjög gott hjá David og hann skoraði sitt frægasta mark hingað til í leik gegn Wimbledon á Selhurst Park – mark sem hann skoraði frá eigin vallarhelmingi. Landsliðsþjálfari Englands, Glenn Hoddle, var einmitt á þessum leik að fylgjast með og varð yfir sig ánægður með frammistöðu hans.
Hann komst nú í landsliðið og spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Moldova 1. september 1996. Áður hafði hann aðeins spilað landsliðsleiki með unglinga- og drengjalandsliði Englendinga. Frábær frammistaða Davids á þessu tímabili færði honum verðlaunin „Besti nýliðinn í deildinni” (Young player of the year) og hann varð í öðru sæti í vali leikmanns ársins (Player of the year). Hann hjálpaði einnig félögum sínum í Manchester að vinna sigur í úrvalsdeildinni (Premiership league) og að komast í undanúrslit í meistaradeild Evrópu (Champions league).

Leiktíðin 97/98 var frekar slæm hjá liði United sem lauk henni í öðru sæti úrvalsdeildarinnar á eftir liði Arsenal og fékk engin verðlaun.

Viktoría kemur til sögunnar

Þetta var nú samt ekki alslæmt ár hjá David því í mars 1997 hóf hann samband við núverandi barnsmóður sína og eiginkonu, Victoriu Adams úr hljómsveitinni Spice Girls.

Þau trúlofuðu sig í janúar 1998 á hóteli í Nantwich í Cheshire. Hann hóf að auglýsa fyrir íþróttamerkið ADIDAS og var valinn í landslið Englendinga til að taka þátt í HM ´98 í Frakklandi um sumarið. Sú keppni var afar skrautleg hjá honum. Í fyrstu leikjunum var hann ekki með en komst loksins inn á í nokkrum leikjum og 26. júní skoraði hann stórglæsilegt mark úr aukaspyrnu af 30 metra færi í leik gegn Kólumbíu. Þetta var fyrsta landsliðsmark hans. Það var litið á hann sem hetju, að minnsta kosti næstu fjóra daga eða þar til hann var rekinn út af í leik gegn Argentínu í 16 liða úrslitum.

Leikmaður Argentínu að nafni Diego Simone hafði verið að klekkja á David allan leikinn og að lokum klippti hann hann niður og beygði sig svo og ruglaði hárinu á honum. Í hita leiksins missti David stjórn á skapi sínu og sparkaði aftan í fótinn á Simone með þeim afleiðingum að hann hneig niður. Danski dómarinn Kim Neilsen sendi David út af með rautt spjald. Það var fyrsta rauða spjaldið hans á ferlinum. Enska landsliðið tapaði leiknum í vítaspyrnukeppni og datt þar með út úr keppninni. David varð þar af leiðandi mest hataði maður Englands. Margir héldu að eftir þessa miklu þolraun myndi David Beckham ekki leika framar á Englandi, haldur verða seldur til Ítalíu eða Spánar. Þeir þekktu greinilega ekki David Beckham, því með hjálp félaga sinna bæði hjá Manchester og landsliðinu, stjóra síns Alex Ferguson og fjölskyldu sinnar og vina efldist hann til muna og varð sterkari fyrir vikið. Það sýndi sig og sannaðist á leiktíðinni sem fylgdi á eftir, 98/99, þar sem David var í lykilhlutverki þegar lið hans varð fyrsta félagsliðið í heiminum til þess að vinna hina miklu þrennu, úrvalsdeildina (Premiership), F.A. bikarinn (F.A. Cup) og meistaradeild Evrópu (Champions league).





Sonur er fæddur
Árið 1999 urðu einnig mikil tíðindi í einkalífi Davids því í mars 1999 eignaðist hann son með sinni heittelskuðu Victoriu Adams. Sá litli fæddist miðvikudaginn 4. mars á Portland-spítalanum í London. Læknirinn, Hr. Gillard, tók hann með keisaraskurði klukkan 19:48 og vóg hann 14 merkur. Honum var strax gefið nafnið Brooklin Joseph Beckham. David gekk svo að eiga Victoriu þann 4. júlí 1999 í lítilli kirkju rétt hjá Luttrellstown kastalanum í Dublin á Írlandi. Það var biskupinn af Cork, Paul Colton, sem gaf þau saman. Veislan var svo haldin í 14 herbergja Luttrellstown kastalanum sem er frá árinu 1794. Veislugestir voru 226. Svaramaður Davids var besti vinur hans til margra ára og félagi hans hjá Manchester, Gary Neville. Hringirnir þeirra Viktoríu voru gerðir af Asprey og Garrard, báðir 18 karata. Árið 1999 má því kalla ár Davids Beckhams.

Á leiktíðinni 99/00 vann David sinn fjórða deildarbikarspening. Hann lenti í öðru sæti í keppninni um besta leikmann Evrópu og um besta leikmann heims, en í hvorutveggja keppninni tapaði hann fyrir brasílíska leikmanninum Rivaldo. Auk þess varð hann annar í valinu um „BBC sports personality of the year“ en þar tapaði hann fyrir hnefaleikamanninum Lennox Lewis. Það var einnig á þessari leiktíð sem David rakaði af sér alla ljósu lokkana sína sem höfðu verið hans aðal vörumerki í langan tíma. Hann fékk sér einnig sitt fyrsta húðflúrið sitt, en það var nafn sonar hans Brooklins skrifað neðarlega á bakið. Stuttu seinna fékk hann sér svo stóran engil ofarlega á bakið. Engillinn horfir niður á nafn Brooklins og á að vera eins konar verndarengill fyrir hann.





Fyrirliðinn
Á leiktíðinni 00/01 vann Manchester svo Premiership deildina enn einu sinni. Auk þess stýrði Beckham fyrsta leik sínum sem fyrirliði enska landsliðsins. Það var í vináttulandsleik gegn Ítölum. Beckham og félagar hans hafa ekki byrjað nógu vel á þessu keppnistímabili. Þeir hafa nú þegar fengið á sig fleiri mörk en þeir fengu allt síðastliðið tímabil. Hvað landsliðið varðar hefur David hins vegar staðið sig nokkuð vel. Hann hefur t.d. skorað í tveim síðustu leikjum liðsins. Hann tryggði Englendingum öruggt sæti á HM 2002 með því að skora beint úr aukaspyrnu þegar aðeins 125 sekúndur voru eftir af leik. Svo skoraði hann sitt sjötta landsliðsmark laugardaginn 10. nóvember í vináttulandsleik gegn Svíum, en það mark kom úr vítaspyrnu á 28 mínútu. David kom Englandi þar með yfir 1-0 en leikurinn endaði þó með jafntefli 1-1. Beckham spilaði sem fyrirliði í báðum leikjunum, og það mun hann einnig gera á HM næsta sumar. Við vonum bara að hann stýri feikisterku landsliði Englendinga til sigurs.

Sweetheart. =)