Íslenskt fótboltamót á Spáni Eftir nokkra daga hefst mjög athyglisvert mót í Canela á Spáni. Átta íslensk lið taka þátt í þessu áhugaverða móti sem kallast Canela Cup. Þar á meðal eru sex úrvalsdeildarlið: Fylkir, ÍBV, KR, FH, Grindavík og ÍA. Auk þeirra verður 1.deildarlið Aftureldingar með auk sérstaks úrvalsliðs frá Úrvali-Útsýn. Mótið er leikið með útsláttarfyrirkomulagi, en þó eru öllum liðum tryggðir þrír leikir. Fyrstu leikir í mótinu fara fram 7. apríl næstkomandi og mótinu lýkur með leikjum um sæti 11. apríl. Þess má geta að 12 íslenskir dómarar sjá um dómgæsluna í mótinu, þeir þurfa að sjálfsögðu einnig að hita sig upp fyrir sumarið.

Keðjureykingamaðurinn Þorgrímur Þráinsson verður að sjálfsögðu fararstjóri eins og undanfarin ár. Það er ljóst að þetta mót verður ansi athyglisvert, m.a. vegna þess að ég veit ekki betur en að Lee Sharpe muni spila með Grindavík í þessu móti. Þá verður gaman að sjá danina hjá FH og svo hvernig “risarnir” Fylkir og KR standa sig.

1.Umferð | Mán 7.Apríl:
14:45 Fylkir - ÍBV
14:45 KR - FH
16:45 ÍA - Afturelding
16:45 Grindavík - Úrval Útsýn

Í 2.umferð keppa svo tapliðin úr fyrstu umferð og í þeirri þriðju mætast sigurliðin. Þær umferðir verða leiknar Miðvikudaginn 9.Apríl. Á föstudaginn verður svo leikið um sæti á mótinu og hefst úrslitaleikurinn kl.16.45 en þar mætast sigurliðin úr 3.umferð.