Eiður Smári hættur með landsliðinu Soccernet.com greinir frá því í morgun að knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen sé harðákveðinn í að hætta að leika með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á meðan það fólk sem nú heldur um stjórnartaumana fer með völdin. “Það er nokkuð síðan ég fékk mig fullsaddan og á þetta mál sér langan aðdraganda. Ég hef oft verið á barmi þess að hætta að spila fyrir hönd Íslands meðan þessir menn eru við stjórnina en framkoma í minn garð í Skotlandi gerði algjörlega útslagið.” sagði Eiður. Blaðamaður Soccernet segist hafa heimildir fyrir því að mikill ágreiningur milli Atla Eðvaldssonar og Eiðs Smára hafi komið upp fyrir leikinn og það sé ekki í fyrsta sinn. “Við höfum gjörólíkar skoðanir og allar þær ábendingar sem ég hef komið með hafa verið hunsaðar. Allt sem ég hef síðan beðið KSÍ um hefur verið neitað og sambandið ekki sýnt mér neinn stuðning ef ég hef lent í erfiðleikum.”

Ljóst er að þetta er mikill missir fyrir íslenska landsliðið í knattspyrnu en Soccernet.com spurði Eið hvort líklegt sé að hann skipti um skoðun: “Ekki á þessari stundu en maður á aldrei að segja aldrei. Ég ætla bara að hugsa minn gang og fara að leggja áherslu á að standa mig með Chelsea.” Eiður segir líka frá því að fleiri leikmenn séu jafnvel að fara að hætta að leika fyrir Ísland “Ég veit allavega af því að tveir aðrir leikmenn sem báðir spila hér á Englandi eru á sömu skoðun og ég. Ég hef rætt við þessa menn og þeir segjast ekki þola þetta ástand mikið lengur.”