Steingrímur heim í heiðardalinn Í seinustu viku skrifaði framherjinn Steingrímur Jóhannesson undir 3ja ára samning við lið ÍBV og er því kominn heim í heiðardalinn. Hann hefur oftar en einu sinni verið markahæsti leikmaður Íslandsmótsins og er markahæsti leikmaður ÍBV frá upphafi í efstu deild með 71 mark. Hann hefur undanfarin tvö ár spilað í Árbænum með Fylki en eftir að Haukur Ingi gekk til liðs við þá taldist engin not vera af Steingrími sem hélt því aftur til Vestmannaeyja og skrifaði undir við ÍBV. Steingrímur lék 55 leiki með Fylki og skoraði í þeim 16 mörk. “Þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími með Fylki. Uppsveifla og titill bæði árin. Nú finnst mér tími til kominn að fá titil til Eyja og því fer ég þangað.” sagði Steingrímur í viðtali á ibv.is.

“Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu liði ÍBV. Pappírinn kannski ekki eins sterkur, en það segir bara ekki allt. Þetta eru mjög duglegir strákar, en þurfa að öðlast leikreynslu sem bætist við með hverjum leiknum. Það bætist nú við leikreynsluna með mér og svo er nú “afi” gamli í markinu ennþá.” sagði Steingrímur og þakkaði Fylkismönnum að lokum fyrir skemmtilegan tíma og óskaði þeim góðs gengis.