Draumurinn úti - Ísland tapaði fyrir Skotum Íslendingar geta nú trúlega gleymt draumnum um að komast í aukaleik um laus sæti í næsta Evrópumóti þrátt fyrir að vera heppnir með riðilinn í undankeppninni. Ísland lék gegn Skotum á Hampden Park í dag og tapaði líkt og í fyrri leik liðanna. Uppstilling Atla Eðvaldssonar vakti mikla athygli eins og venjulega en hans markmið var að halda markinu hreinu fyrsta hálftímann og sjá svo til. Markmiðið náðist ekki og Kenny Miller kom skotum yfir á 11.mínútu eftir fyrstu varnarmistök Íslendinga í leiknum. Fyrri hálfleikurinn var hræðilega slakur af hálfu íslenska liðsins og Skotar fóru með 1-0 forystu inn í klefann.

Á 49.mínútu átti Jóhannes Karl frábæra sendingu inn á Eið Smára Guðjohnsen sem náði að jafna 1-1. Allt annað var að sjá til íslenska liðsins. Á 70.mínútu leiksins kom svo hörmungin sem sjá má á myndinni. Varnarmaðurinn Lee Wilkie skoraði með skalla og fleiri urðu mörkin ekki. Skotar unnu því góðan 2-1 sigur á Íslendingum en þeir eru tveimur sætum neðar en við á styrkleikalista FIFA. Berti Vogts þjálfari Skota segir að nú séu möguleikar Íslenska liðsins úr sögunni.

Byrjunarlið Íslands:
Árni Gautur Arason
Bjarni Óskar Þorsteinsson
Arnar Þór Viðarsson
Lárus Orri Sigurðsson
Ívar Ingimarsson
Guðni Bergsson
Jóhannes Karl Guðjónsson
Brynjar Björn Gunnarsson
Arnar Grétarsson
Rúnar Kristinsson (f)
Eiður Smári Guðjohnsen

STAÐAN Í RIÐLINUM:
1 Skotland 3 7
2 Þýskaland 2 6
3 Ísland 3 3
4 Litháen 3 3
5 Færeyjar 3 1