Leikir helgarinnar í Deildarbikarnum Nú er keppni í Deildarbikarkeppni KSÍ langt á veg komin. Í efri deild karla er keppt í tveimur riðlum og þar er spennan ekki lítil. Keppt er í hinum ýmsu innanhúss-höllum sem risið hafa um allt land. Um helgina fóru fram margir leikir og ætla ég að fara yfir úrslitin úr þeim:

A-RIÐILL
Mikil spenna var í Egilshöllinni á föstudagskvöldið þar sem KR mætti Þórsurum. Þór hafði yfir í hálfleik 1-0 eftir mark Jóhanns Þórhallssonar. Þegar fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleik fengu Þórsarar vítaspyrnu sem Hörður Rúnarsson tók og skoraði úr, staðan orðin 2-0. Stíflan brast svo á 67.mínútu og héldu þá KR-ingum engin bönd. Scott Ramsey braut ísinn og svo fylgdu tvö mörk frá Kristni Hafliðasyni, annað þeirra úr víti. Á seinustu mínútunum skoraði svo Sigurvin Ólafsson tvö mörk þannig að KR vann 5-2 í hreint ótrúlegum leik!

Í gær gerðu ÍA og Stjarnan 1-1 jafntefli í Fífuni og í dag vann Afturelding sinn fyrsta sigur. Unnu Þórsara 2-1 þannig að segja má að Þór hafi ekki gert góða ferð suður þessa helgi. Fram situr í efsta sæti riðilsins með 10 stig eftir 5 leiki, næsti leikur þeirra er á föstudag gegn KR sem er í 2.-3.sæti ásamt Keflavík með 9 stig eftir 4 leiki.

B-RIÐILL
Það voru aðeins fjórar mínútur liðnar af leik Fylkis og FH á föstudag þegar Sverrir Sverrisson kom Fylki yfir 1-0. Á 55.mínútu jafnaði Jón Þorgrímur Stefánsson leikinn og urðu úrslitin 1-1 jafntefli í Egilshöll. Kjartan Sturluson stóð ekki milli stangana hjá Fylki heldur Bjarni Þórður Halldórsson. Í gær mættust á sama stað ÍBV og Valur og voru það Eyjamenn sem fóru með sigur af hólmi 1-0 en Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði markið undir lok fyrri hálfleiks.

Tveir leikir fóru fram í riðlinum í dag. Grindavík vann Hauka 2-0 í Fífuni og Víkingur vann Þrótt 3-2 í Egilshöl. Þess má geta að óopinber heimasíða Víkings, www.vikingur.net, hefur opnað á nýjan leik. Staðan í B-riðlinum nú þegar öll liðin hafa leikið fjóra leiki er þannig að Grindavík trjónir á toppnum með 12 stig, Víkingar hafa 9 stig en Þróttur og ÍBV 6.