Albert Sævarsson markvörður frá Grindavík hefur skrifað undir tveggja ára samning við liðið B68 í Færeyjum. Liðið hefur þrisvar hampað meistaratitlinum þar í landi, seinast 1992. Svangaskarð sem er heimavöllur liðsins er sögufrægur. Hann var til skamms tíma eini grasvöllurinn í Færeyjum og þar hafa Færeyingar leikið flesta landsleiki sína eftir að þeir byrjuðu að spila á heimavelli í alþjóðlegum mótum. Liðið er frá Tóftum og getið þið fræðst meira um félagið á heimasíðu þess, <a href="http://www.b68.fo/">www.b68.fo</a>.

Eiginkon a Alberts er færeysk og hefur hann dvalið í Færeyjum undanfarnar vikur og leikið með liðinu á undirbúningstímabilinu. Ingvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði við Morgunblaðið að forráðamenn færeyska liðsins beri mikið lof á frammistöðu Alberts. Hann er 29 ára og hefur verið aðalmarkvörður Grindvíkinga frá fyrsta ári þeirra í efstu deild, 1995. Hann er leikjahæsti leikmaður félagsins í deildinni með 133 leiki og þar af lék hann 121 í röð, allt frá sínum fyrsta leik og þar til hann missti af byrjun síðasta Íslandsmóts vegna meiðsla. Tók þá Atli Knútsson við stöðu hans milli stanganna.