Lee Sharpe ætlar til Spánar með Grindvíkingum Á miðvikudaginn kom gamla knattspyrnu-stórstjarnan Lee Sharpe í litla sjávarbæinn Grindavík á Íslandi. Kom hann til að kynna sér aðstæður hjá liðinu og fékk drög að samningi. Í gærmorgun hélt þessi 32 ára knattspyrnumaður, fyrrum leikmaður Man.Utd. og Leeds, svo af landi brott með drög af samningi í ferðatöskunni. Áætlað er að Sharpe fari til Spánar um næstu mánaðarmót þar sem Grindvíkingar verða í æfingaferð. 200 manns mættu til að horfa á æfingu hjá Grindvíkingum í Reykjaneshöllinni á miðvikudag og sýndi Sharpe þar góða takta enda var hann efnilegasti leikmaður Bretlandseyja á sínum tíma!

Grindvíkingar krossleggja nú fingur í von um að Sharpe muni leika með þeim í sumar og líkir Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildarinnar því við himnasendingu ef hann ákveði að slá til. “Það væri þó mest undir konu hans og fimm ára gömlu barni þeirra komið hvort af þessu gæti orðið en nánustu vinir og vandamenn hefðu hvatt hann til að fara,” sagði Jónas við Morgunblaðið. Sterkir bakhjarlar Grindavíkur eru nú með málið í sínum höndum og verður það síðan í höndum stjórnar knattspyrnudeildar að binda endahnútinn ef það verður hægt.