Wenger í búningsklefa í hálfleik Ég má nú til með að vitna í Seaman út af atvikinu með Fergie og Beckham í búningsklefa á Old Trafford um helgina eftir bilarleik Man Utd og Arsenal (0-2). Þessi pæling er einnig í nýja fréttablaði Arsenal-klúbbsins og á vel við í dag.

Í bókinni Safe Hands eftir David Seaman er skemmtileg lýsing á ástandinu í búningsklefanum í hálfleik. Grípum niður í lýsingu hjá Seaman.

“Ég hef heyrt að Sir Alex taki ekki eins oft æðiskast í hálfleik eins og hann gerði. Hann hefur mýkst í skapi með aldrinum og aukinni velgengni, segja þeir, en ég myndi alveg veðja á það, hvort sem hann sigrar eða tapar, að hann sé háværari en Arsene í hálfleik, en Arsene er sérstaklega illa við hávaða, hann bókstaflega þolir hann ekki. Reyndar leyfir hann ekki að neitt sé sagt í hálfleik fyrr en rétt áður en við förum út aftur til að spila seinni hálfleik. Þegar við komum inn athugar hann hvort einhver sé meiddur og síðan situr hann hljóður úti í horni. Ætlast er til að við gerum hið sama. Ef einhver tjáir sig um eitthvað sem gerðist í fyrri hálfleik segir hann viðkomandi að hafa sig hægan. Þetta á jafnvel við um Pat Rice, sem vanalega iðar í skinninu eftir að tjá sig um hlutina. Ef Pat byrjar að hamast yfir einhverju stöðvar Arsene orðaflauminn og segir honum að róa sig niður. Hann bíður þar til 12 af 15 mínútum hálfleiksins eru liðnar og þá fyrst segir hann örfá orð um seinni hálfleikinn.

Eftir leikinn segir hann: ”Vel gert,“ ef við sigruðum eða lékum vel en ekki neitt ef við spiluðum illa. Hann bíður þar til á næstu æfingu og leitar þá að vandanum sem við var að etja í leiknum. Hann blótar sjaldan og þegar hann gerir það hljómar það alltaf frekar skringilega með þessum franska hreim. Það getur verið að hann líti út fyrir að vera strangur og önugur en hann er þrátt fyrir allt heilmikill húmoristi á sinn þurrlega hátt og hefur gaman af að segja brandara á sinn rólega hátt. Við hlæjum líka stundum að honum og köllum hann Clouseau af því að hann er alltaf að velta einhverju um koll.” (bls. 216)

Í bókinni “The Professor”, um Wenger er þessi heimsspeki útskýrð en í Japan er allt önnur menning og þar er það óvirðing að ráðast að fólki með skömmum, heldur er þar virðing fyrir fólki í hávegi höfð. Sem sagt, frönsk kurteisi í bland við austurlenskar hefðir.