Danskur framherji finnur Þróttarann í sér Danskur framherji, Søren Hermansen, hefur ákveðið að leika með nýliðum Þróttar í Símadeildinni. Hann mun vafalítið styrkja liðið til muna en hann er 32 ára gamall og lítur á pappírnum hrikalega út fyrir varnarmenn deildarinnar! Tímabilið 1995-96 skoraði hann 23 mörk í 28 leikjum í dönsku 2.deildinni og varð markahæstur. 1996-97 varð hann markakóngur í 1. deild, skoraði 25 mörk í 28 leikjum og rúsínan í pylsuendanum: 1997-1998 skoraði hann 19 mörk í 33 leikjum í dönsku úrvalsdeildinni med Århus Fremad og varð næstmarkahæstur á eftir Ebbe Sand. 1998 fór hann til Lyngby þar sem hann spilaði í tvö ár og varð markahæsti maður liðsins með alls 29 mörk í 58 leikjum. Søren fór þá til Belgíu þar sem hann hefur leikið með Mechelen en hætti um áramótin vegna gjaldþrots félagsins.

Í Morgunblaðinu í morgun segir Kristinn Einarsson formaður Knattspyrnudeildar Þróttar að þeim hjá félaginu litist mjög vel á þennan leikmann og telja að hann muni styrkja Þrótt verulega. Hann er mjög reyndur og hefur alls staðar skorað mikið af mörkum. Samkvæmt fótbolti.net er hann 1,75 á hæð og réttfættur. Þróttur hefur á að skipa allsvakalega sterkri sóknarlínu en gaman gæti verið að sjá Søren spila frammi með hinum unga og stórefnilega Hjálmari sem hefur farið hamförum á Reykjavíkurmótinu með Þrótt.

Þá hefur miðjumaðurinn, Þorsteinn Jónsson, sést á æfingum hjá Ásgeiri Elíassyni samkvæmt gras.is og má því búast við því að þeir Þróttarar verði sterkir í sumar.