Ólafur Þór Gunnarsson ver mark Vals Markvörðurinn Ólafur Þór Gunnarsson hafnaði tilboði KA og hefur ákveðið að ganga í raðir nýliða Símadeildarinnar, Vals. Ólafur Þór spilaði á sínum tíma með ÍR og lék þá alla 18 leiki liðsins seinast þegar þeir voru í úrvalsdeildinni. Undanfarin fjögur ár hefur hann leikið í marki ÍA og m.a. afrekað að verða íslandsmeistari með liðinu. Hann hefur spilað 72 leiki fyrir ÍA í efstu deild og einn A-landsleik gegn heimsmeisturum Brasilíu. Ólafur fékk þó lausn frá samningi sínum þegar Þórður Þórðarson gekk til liðs við ÍA.

Ekki virðist vera almenn ánægja hjá Völsurum með komu Ólafs ef miðað er við skrif á Valsarar.blogspot.com: “Þrátt fyrir að ný stefna hafi verið tekin fyrir hálfu öðru ári um að byggja á mönnum sem eiga rætur í Val lítur út fyrir að stokkið hafi verið á næstu gæs sem greipst.” segir einn af pennum síðunnar. Einnig virðast þeir hafa áhyggjur að því að Ólafur muni ekki spila lengi með Val þar sem hann hefur verið að stefna á flutning til Bandaríkjanna. “Illa er vegið að Hjörvari (Hafliðasyni) með þessum kaupum, en Hjörvar er leikmaður sem hefur spilað nánast upp á vatn og brauð fyrir Val og verið trúr málsstaðnum annað en ónefndir málaliðar”

Óánægja þessara Valsmanna byggist aðallega á þeirri meðferð sem markvörður þeirra, Hjörvar Hafliðason, er að fá því hann hefur staðið sig vel milli stanganna í marki Vals. “Ólafur er góður markmaður sem er stór á velli og hefur heilmikið til brunns að bera þannig að vissulega eru það gleðitíðindi að leikmaður af hans getu vilji spila með Val. Ekki bera að skilja þessi skrif sem einhverja haturskennda áróðursherferð gegn Ólafi og er honum óskað sem bests gengis í Valstreyjunni.”

Ólafur er fjórði leikmaðurinn sem gengur í raðir Vals fyrir tímabilið. Hinir eru Hálfdán Gíslason, Jóhann Möller og Kristinn Lárusson.