Ég get trúað því að ekki séu margir FH-ingar ánægðir með að heyra þessa frétt! En Auðun Helgason skrifaði í gær undir samning við sænska liðið Landskrona til tveggja ára. Liðið var nýliði í sænsku úrvalsdeildinni í fyrra, byrjaði tímabilið vel en endaði í 11.sæti. Auðun er 28.ára gamall varnarmaður, fyrrum leikmaður Lokeren. Hann var sterklega orðaður við FH en telur spennandi kost að fara til Svíþjóðar. Hann lék æfingaleik með Landskrona á laugardag gegn danska liðinu Frem. Landskrona vann 3-0 og spilaði Auðun mjög vel í leiknum og fékk þá samning í hendurnar.

Annar íslenskur landsliðsmaður, Ívar Ingimarsson, fékk góðar fréttir um helgina. Um daginn skrifaði ég grein um að Ívar væri fastur hjá liði Wolves í enska boltanum þar sem hann fengi ekkert að spreyta sig. Nú er orðið ljóst að Ívar fer í mánuð í lán til Brighton eftir 8. febrúar. Þann dag leikur Wolves gegn Brighton í neitaði þjálfari Wolves að leyfa Ívari að fara fyrr en að þeim leik loknum. Steve Coppell er þjálfari Brighton en Ívar var lykilmaður hjá Brentford þegar Coppell var þar við stjórnvölinn.