Enskum knattspyrnuáhugamönnum fundust þeir illa sviknir á dögunum þegar að fresta varð nokkrum leikjum vegna rigningar þar í landi, en knattspyrnuáhugamenn í Íran stóðu hins vegar furðu lostnir nú um helgina þegar að flauta þurfti af leik út af hundi sem hljóp inn á völlinn.

Hundurinn sem var víst engin smásmíði komst einhverra hluta vegna inn á völlinn þegar að Kar-o-Technic og Iran-Sport áttust við. Dómarinn og leikmenn urðu skíthræddir og hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa til búningsklefa, en sá stóri hafði augastað á öðrum línuverðinum sem náði ekki að komast undan. Vesaling línuvörðurinn hafði aðeins flaggið að vopni og upphófust mikil slagslmál meðal þeirra sem stóðu yfir að sögn fréttaskeytis í 20 mínútur. Línuverðinum tókst að lokum að buffa hundinn og áhorfendur sem höfðu fylgst með og hlegið að öllu saman gáfu honum gott klapp. Það rann hins vegar af þeim brosið þegar að dómarinn lét loksins sjá sig aftur, og það eina sem hann gerði var að flauta leikinn af.
__________________________