Það er óhætt að segja að það sé líf og fjör í kýpverska boltanum þessa dagana. Það sauð upp úr svo um munaði um helgina þegar Famagusta mætti Nicosia. Einn leikmaður hélt þó aðallega uppi fjörinu með því að lemja dómara, línuvörð, leikmenn, þjálfarann sinn og óeirðalögregluna.

Málsatvik voru þannig að það var búið að vera allt vitlaust frá fyrstu mínútu og allt útlit fyrir allsherjar uppþot. Annar línuvörðurinn fékk þó aðallega að finna fyrir því. Eftir að þessi línuvörður hafði gert allt vitlaust fóru áhorfendur að kasta drasli að honum sem leiddi til þess að dómarinn varð að kalla hann inn að miðjunni til að veita honum skjól. Þá koma tveir leikmenn Famgusta, sem áður höfðu lent í rimmu við línuvörðinn, til móts við dómarana og fóru að hella sér yfir línuvörðinn. Það eina sem þeir græddu á þeim látum var rautt spjald.

Þá trompaðist annar leikmaðurinn, sem heitir Iannou, og hrinti dómaranum til þess að komast að línuverðinum sem tók á rás. Honum tókst þó að hlaupa hann uppi og kýldi hann svo hressilega að línuvörðurinn steinlá. Hann stökk svo oná línuvörðinn og lét höggin dynja á honum á meðan leikmenn og lögregla reyndu að rífa hann af línuverðinum.

Við þetta varð að kalla óeirðalögregluna inn á völlinn svo hægt væri að koma dómurunum til búningsherbergja. Áhorfendur urðu óðir og átti lögreglan fullt í fangi með að aftra þeim frá því að komast inn á völlinn vegna þess að leikmenn Omonia hvöttu þá til þess að koma inn á.

Maðurinn sem lamdi línuvörðinn, Iannou, var leiddur af velli en slapp úr gjörgæslu lögreglunnar stuttu síðar og hljóp út á völlinn á ný, tilbúinn í frekari slagsmál. Hann hljóp beint út að miðju vallarins þar sem hann hrinti burtu félögum sínum sem reyndu að róa hann niður, tók boltann sem spilað var með og dúndraði honum í stuðningsmenn Omonia. Þá greip einn félagi hans í hann til þess að róa hann niður, en ekki vildi Iannou hlusta á það og kýldi hann því í jörðina.

Við það kom þjálfarinn á vettvang og reyndi að róa manninn, en hann fékk sömu móttökur og hinir, það er að hann var líka kýldur kaldur. Iannou var á endanum leiddur af velli af 12 lögreglumönnum sem hentu honum inn í búningsklefa og sögðu honum að slaka á.

Ekki var allt búið enn því nokkrum mínútum síðar fór geðsjúklingurinn Iannou, ásamt félaga sínum, út úr búningsklefanum og beint inn í búningsklefa dómaranna þar sem þeir buffuðu dómarann hressilega sem lokaatriði.

Lögreglan gerði svo þau mistök að hleypa stuðningsmönnum beggja liða út af vellinum á sama tíma sem leiddi til allsherjar slagsmála á bílastæðinu sem varð til þess að bílum var velt á hliðina, rúður voru brotnar og annað í þeim dúr.

Iannou horfir fram á lífstíðarbann frá fótbolta ásamt nokkrum ákærum fyrir líkamsárás.
__________________________