Jóhannes á þeytingi milli landa Margt hefur gerst undanfarna sólarhringa í lífi knattspyrnumannsins Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Jóhannes flaug aftur til Spánar í gærkvöld eftir að svo virtist sem ekkert yrði úr samningum á milli Real Betis og Aston Villa. Jói fór til Villa eftir að Betis hafði samþykkt að leigja hann til liðsins en í gær tilkynntu þeir að þeir vildu fá tvöfalda þá upphæð sem félögin höfðu áður komist að samkomulagi um. Í morgun bjargaðist málið og er samkomulag aftur komið á milli félaganna. Hann er því aftur á leið til Englands en missir af varaliðsleik sem hann átti upphaflega að spila í kvöld.

Þannig að nú getur Jóhannes farið að anda rólega því hann verður hjá Villa út leiktíðina og verður keyptur til liðsins ef hann stendur sig vel. Graham Taylor stjóri Aston Villa hefur ekki pening til leikmannakaupa og þurfti því að treysta á að landa leikmanni á lánssamningi en Jóhannes verður eini leikmaðurinn sem gengur í raðir Villa áður en leiktíðinni lýkur. Taylor segir að leiðinlegt sé að leikmaðurinn geti ekki spilað með varaliðinu í kvöld en er ánægður með að allt sé kominn í réttan farveg.