Ívar Sigurjónsson genginn til liðs við Þróttara Þróttur sem hafnaði í öðru sæti 1.deildar í fyrra hefur fengið liðsstyrk. Framherjinn Ívar Sigurjónsson hefur sagt skilið við Breiðablik og er genginn í raðir Þróttara. Ívar er fyrsti leikmaðurinn sem gengur til liðs við Þrótt fyrir komandi keppnistímabil en þeir munu tefla fram nánast óbreyttum hóp í úrvalsdeildinni í sumar frá því í fyrra. Ívar er 26 ára gamall og hefur leikið með Blikum allan sinn feril. Samkvæmt Breidablik.is hefur hann leikið 60 leiki með í efstu deild með Blikum og hefur skorað í þeim 10 mörk. Á síðasta tímabili skoraði Ívar 7 mörk fyrir Kópavogsliðið í 16 leikjum í 1. deildinni og var markahæsti leikmaður liðsins. Hann ætti því að vera þeim Þrótturum góður liðsstyrkur.