Héðan og þaðan (Fifa listinn, KA, Jói Kalli o.fl.) Maðurinn á myndinni hér til hægri heitir Steinar Tenden og er Norskur. Hann er fæddur 1978 og er hávaxinn framherji. Seinustu ár hefur hann spilað í norsku 3.deildinni með liði Stryn. Hann ku vera mikill markaskorari og hefur skorað 60 mörk fyrir liðið í 58 leikjum sem er ótrúlegur árangur. Þar af gerði hann 32 mörk á einu tímabili. Þessi maður er á leiðinni til landsins þar sem hann verður til reynslu hjá KA í 10 daga en eftir það verður framhaldið ákveðið. Akureyringarnir Júlíus Tryggvason og Ingi Hrannar Heimisson hafa spilað með Stryn á undanförnum tveimur árum og má því fastlega reikna með að þeir hafi mælt með Tenden.

Lífið virðist leika við KA-menn þessa dagana því nú á Laugardaginn verður vígt nýtt knattspyrnuhús á Akureyri fyrir þá og Þórsara. Heljarinnar dagskrá verður frá og með klukkan 13:30.
______________________

KSÍ leitar að verkefni fyrir landsliðið á alþjóðlega leikdeginum 12.Febrúar. Liðið mætir Skotum þann 29. mars. Á dögunum barst fyrirspurn frá Íran um vináttulandsleik en Íran er of langt í burtu að mati KSÍ. Búið er að festa einn vináttuleik á árinu, gegn Finnum ytra 29. apríl.
______________________

DV segir að Jóhannes Karl Guðjónsson sé á leið til Aston Villa. Jóhannes er hjá Real Betis á Spáni en hefur ekkert fengið að spreyta sig þar á leiktíðinni. Hann er í íslenska landsliðinu og hefur einnig verið orðaður við Charlton.

Hann er ekki eini íslendingurinn sem talað er um að sé á leiðinni í ensku úrvalsdeildina því Hermann Hreiðarsson gæti verið seldur frá Ipswich til Birmingham. Fótbolti.net segjir að Birmingham séu reiðubúnir að borga 2,5 milljónir punda fyrir Hemma.
______________________

Fyrstu leikjunum í Reykjavíkurmótinu er lokið. Í A-riðli unnu KR-ingar Létti léttilega 8-0 í opnunarleik mótsins. Klukkan 21 á föstudaginn leikur KR gegn Leikni sem tapaði naumt fyrir Val í mótinu 1-2. Í B-riðlinum vann Víkingur lið ÍR 5-1 og Fylkismenn fóru illa með Fjölni 8-1. Fjölnismenn mæta Fram á föstudaginn.

______________________

Það virðist alltaf vera hægt að nota fyrirsögnina “Ísland á niðurleið” þegar Fifa kynnir nýjan styrkleikalista. Engin undantekning er á því nú, Ísland fellur um þrjú sæti frá seinasta lista. Ísland situr í 61.sæti en í 8.sæti er England sem fellur um eitt sæti. Staðan á toppnum hefur lítið breyst og sex efstu þjóðirnar á listanum eru þær sömu og fyrir mánuði. Nýtt lið á lista er Afganistan sem er í 204.sæti.

TOPP 10
1 Brasilía
2 Frakkland
3 Spánn
4 Þýskaland
5 Argentína
6 Holland
7 Tyrkland
8 England
9 Mexíkó
10 Bandaríkin

—–

58 Ungverjaland
59 Ghana
60 Skotland
61 ÍSLAND
62 Eistland
63 Qata