Ívar úti í kuldanum hjá Úlfunum Ívar Ingimarsson er ekki í 16 manna leikmannahópi Wolves sem mætir Walsall í dag. Þetta kemur ekki á óvart þar sem Ívar hefur ekki svo mikið sem verið á bekknum í u.þ.b. þrjá mánuði. Ívar sagði í viðtali í þættinum 4-4-2 á Sýn í gær að hann vildi ekki yfirgefa Wolverthampton þar sem liðið væri frábært, hann sé hinsvegar ekki sáttur með að hafa misst sæti í byrjunarliðinu eftir að Paul Ince kom til liðsins. Ívar hefur undanfarið verið að reyna að komast burt frá félaginu sem lánsmaður og hafa 1. deildarfélögin Brighton og Sheffield Wednesday haft samband og viljað leigja Ívar en stjóri Wolves, Dave Jones, er ekki til í það og segir Íslendinginn ennþá vera í 18 manna hópi sínum. Þó hefur Ívar ekki fengið að spila síðan 29. október þegar Úlfarnir gjörsigruðu Gillingham 4-0 en þá var honum skipt inn á 10 mínútum fyrir leikslok.

“Ég er að vonum svekktur að fá ekki tækifæri sérstaklega þar sem mér gekk vel. Ég hef aldrei verið í eins vel upplagður og einmitt nú, en maður verður bara að taka þessu og grípa tækifærið þegar það gefst.” sagði Ívar í viðtali við Morgunblaðið í vikunni. Wolves hefur ekki gengið vel að undanförnu. Fyrir sigurinn á Newcastle í bikarnum um seinustu helgi hafði liðið aðeins unnið einn leik af síðustu sjö og situr nú í 10. sæti 1. deildar sem er ekki ásættanlegt. Það er því farið að hitna hressilega undir Dave Jones.