Guðni Bergs og Eiður Smári meðal tíu bestu Í gær voru opinberuð nöfn þeirra tíu íþróttamanna sem urðu efstir í kjöri á Íþróttamanni ársins 2002. Kjörið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 frá Grand hóteli Reykjavík á fimmtudaginn. Verður það í 47. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna standa að kjörinu síðan þau voru stofnuð 1956. Knattspyrnumennirnir Eiður Smári Guðjohnsen úr Chelsea og Guðni Bergsson úr Bolton eru báðir í hópi tíu efstu eins og í fyrra en þá hlaut sundgarpurinn Örn Arnarsson titilinn. Einnig kemur knattspyrnukonan Ásthildur Helgadóttur úr KR til greina.

Í hófinu verða þessir tíu íþróttamenn heiðraðir með veglegri bókagjöf frá Eddu miðlun og þrír efstu menn fá jafnframt eignargripi og flugmiða frá Flugleiðum. Þá fær Íþróttamaður ársins til varðveislu í eitt ár styttuna glæsilegu sem fylgt hefur nafnbótinni frá upphafi. Hér að neðan sjáið þið svo listann yfir þessa tíu íþróttamenn í starfrófsröð en einn af þeim hreppir nafnbótina Íþróttamaður ársins árið 2002. Einnig fáið þið nánari upplýsingar um Guðna og Eið.


Ásthildur Helgadóttir, knattspyrnukona úr KR.
Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður hjá Chelsea.
Guðni Bergsson, knattspyrnumaður með Bolton.
Jón Arnar Magnússon. frjálsíþróttamaður í Breiðabliki.
Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksmaður í Trier í Þýskalandi.
Kristín Rós Hákonardóttir, sundkona í Fjölni.
Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður hjá Magdeburg í Þýskalandi.
Ólöf María Jónsdóttir, kylfingur úr Keili.
Rúnar Alexandersson, fimleikamaður úr Gerplu.
Örn Arnarson, sundmaður í ÍRB.

___________________________

Guðni Bergsson - Bolton
Varnarmaður
Fæddur: 21.Júlí 1965
Landsleikir: 77
Hæð: 1.85m
Þyngd: 77.63kg
Ferill: Fór frá Val 1988 til Tottenham. Var síðan keyptur til Bolton 1995. Hefur nokkrum sinnum hætt við að leggja skóna á hilluna en ætlar að gera það eftir þetta tímabil.
___________________________

Eiður Smári Guðjohnsen - Chelsea
Fæddur: 15.September 1978
Hæð: 1.80 m
Þyngd: 82.63kg
Ferill: Ólst upp hjá Val en fór ungur til PSV í Hollandi. Þar meiddist hann illa og var frá í langan tíma. Kom heim og spilaði með KR. Þaðan fór hann til Bolton þar sem hann fór á kostum og var keyptur til stórliðsins Chelsea.