Þórður og Stefán Þórðarssynir til ÍA Bræðurnir Þórður Þórðarsson og Þórðarsson munu spila með ÍA í Símadeildinni á næstu leiktíð. Nánast er búið að ganga frá þessu. Stefán er miðjumaður og er laus allra mála hjá Stoke City en hann hefur átt við erfið meiðsli að stríða að undanförnu. Þórður er markvörður og spilaði með KA í sumar en hefur tilkynnt það að hann leiki ekki með þeim á næstu leiktíð. Báðir hafa þeir spilað áður með ÍA þar sem þeir eru reyndar uppaldir.

Þórður mun ekki ganga inn í lið ÍA því þeir eru með hinn stórgóða Ólaf Þór Gunnarsson milli stanganna hjá sér. Ólafur á eitt ár eftir af samningi sínum en heyrst hefur að Valur hafi mikinn áhuga á að fá Ólaf til liðs við sig. Þórður spilaði á sínum tíma með Val en er ekki í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum liðsins eftir að hafa yfirgefið liðið um leið og liðið féll og talað illa um liðið í sjónvarpsútsendingu. Ekki hefur hann skapað sér miklar vinsældir meðal KA-manna eftir nýjustu ákvörðun sína.