Ferill Laurent Blanc gæti verið á enda runninn, fyrr heldur en menn höfðu reiknað með, en franska knattpspyrnusambandsið er sem stendur að leita sér að varnarlegum tækniráðgjafa.
Talið er að Jacques Santini, landsliðsþjálfari, hafi áhuga á að fá Blanc til samstarfs við sig.
Hinum 36 ára gamla Frakka hefur gengið erfiðlega að ná aftur stöðu sinni í aðalliði Manchester United, en liðið hefur bætt frammistöðu sína verulega á seinustu vikum með þá Mikael Silvestre og Wes Brown í hjarta varnarinnar.
Og þegar Rio Ferdinand kemur aftur eftir meiðsli gæti Blanc verið orðinn fimmti í goggunarröð miðvarða á Old Trafford, en hinn ungi John O'Shea er einnig með í baráttunni.
För Blanc heim til Frakklands gæti einnig reynst auðveld leið fyrir Sir Alex Ferguson út úr erfiðri stöðu, en samningur Blanc rennur út nú í sumar og hann hefur gefið til kynna að hann sé reiðubúinn að framlengja hann aftur.

United yrðu þó sennilega ekki lengi að bæta við sig nýjum miðverði ef Blanc færi, en það myndi líklega lækka meðalaldurinn verulega, en þeir Philippe Mexes, Nicolas Burdisso og Julien Escudé, sem mest hafa verið orðaðir við félagið, eru allir rúmum tíu árum yngri heldur en Laurent.