Lee Sharpe til Grindavíkur?! Víkurfréttir hafa óstaðfestar heimildir fyrir því Grindvíkingar eigi í viðræðum við Lee Sharpe um að leika með liðinu í Símadeildinni næsta sumar. Sharpe spilar þessa stundina með Exeter City í ensku 3. deildinni en spilaði áður m.a. með Manchester United. Viðræðurnar hafa staðið yfir í þó nokkurn tíma og er talið að Sharpe muni koma hingað til lands á allra næstu dögum til að skoða aðstæður.

Sharpe er 31 árs og lék með enska landsliðinu í valdatíð Grahams Taylor. Hann hefur eins og áður sagði leikið með Manchester United og einnig Leeds United og Bradford svo einhver lið séu nefnd. Hann hefur þó átt í töluverðum erfiðleikum undanfarin ár og ekki náð að fóta sig almennilega jafnt innan vallar sem utan. Það er þó engin spurning að kappinn ætti að geta verið Grindvíkingum góður liðstyrkur, jafnt í fótboltanum sem og næturlífinu.

Lee Sharpe
Staða: Vinstri kantmaður.
Fæddur: 27 Maí 1971, Halesowen (England)
Hæð: 182 cm
Þyngd: 81 kg
Landsleikir: 8 A-landsleikir, 1 B, 8 U21.