Grindvíkingar fá Óla Gott Grindvíkingum hefur borist gríðarlega góður liðsstyrkur fyrir næsta keppnistímabil. Ólafur Gottskálksson markvörður og atvinnumaður í knattspyrnu til margra ára hefur ákveðið að ganga til liðs við Grindvíkinga. Ólafur er margreyndur landsliðsmaður í knattspyrnu og atvinnumaður með liðum eins og Hibernian í Skotlandi og Brentford á Englandi. Áður en hann fór erlendis spilaði hann með Keflavík. Það er engin vafi á að Ólafur mun styrkja lið Grindvíkinga í baráttunni sem framundan er. Mörg lið sýndu áhuga á Ólafi, þ.á.m. Ipswich Town, Stoke, Stockport ofl. Ólafur ákvað samt sem áður að snúa aftur heim úr atvinnumennskunni og setjast hér að í Grindavík.

Þess má til gamans geta að eiginkona hans er Grindvíkingur. Ein af ástæðum þess að Ólafur hefur ákveðið að snúa aftur heim er sú að meiðsli hafa hrjáð hann og það álag sem fylgir atvinnumennskunni er mikið. Til marks um það leikur lið hans um 50-60 leiki í deildar- og bikarkeppnum á tímabilinu. Auk þess sem börn hans eru komin á skólaskyldualdur og Ólafur hefur áhuga á að spila í UEFA-keppninni. Rík ástæða er fyrir Grindvíkinga til að vera bjartsýnir á komandi ár því mikil gróska er í starfi knattspyrnudeildarinnar og metnaðurinn eftir því.