gimsteinar geymdir í útlöndum Englendingar eru með ströng lög um innflytjendur og fótboltamenn þar sko aldeilis ekki undanskildir. Eins og flestir vita hafa hinir og þessir ekki fengið heimild til að spila með enskum liðum og ungir leikmenn með litla landsliðsreynslu komast bara ekki til Englands.
Nokkur lið hafa þó fundið krókaleiðir, ekki ólöglegar en samt umdeildar, til að “eignast” efnilega pilta.
Arsenal og Manchester United geyma bara óslípuðu gimsteinana sína í Belgíu og þar lúra nokkrir snillar þangað til þeir mega spila á Englandi samkvæmt lögum, því eftir tveggja ára spilamennsku í Evrópu fá þeir leyfi til að spila á Englandi – sem “Evrópubúar” eða “Evrópufótboltamenn” öllu heldur.
Fyrir stuttu gerði Ferguson samning við hinn 18 ára Gomez, gullmola frá Gambíu og einnig 18 ára töframann frá Quatar, Hussain. Sendi þá umsvifalaust til Belgíu og “lánaði” Royal Antwerpen piltana, væntanlega í tvö ár.
Wenger hjá Arsenal notar Beveren í Belgíu í svona lagað, þar geymir hann ekki minna en sjö unglinga, flesta frá Afríku, þar á meðal litla bróður Kolo Toure, hann Yaya frá Fílabeinsströndinni.
Enska knattspyrnusambandið er ekki hrifið af svona bissniss og ætlar að rannsaka þetta ofan í kjölinn en Wenger segir bara hið besta mál og þarna sé hann að ala upp nýja Patrikka Viera.

Svo má geta þess að ensku blöðin hafa verið að velta sér ofboðslega mikið uppúr því að gluggaþvottamaðurinn Nev Davies og sendibílstjórinn Wayne Makers sem voru að þjálfa hjá Copplehouse Colts, fóru með Wayne Rooney til Liverpool þegar hann var níu ára, því hann var svoddan gríðarlegt efni og skoraði grimmt í leikjum.
Púllarar vildu lítið með hann hafa en Everton sýndi áhuga og hafa alið piltinn upp, með bara góðum árangri.
Ef Terry Venables selur alla uppáhaldsleikmennina mína í Leeds og kaupir einhverja skussa í staðinn, þá ætla ég bara að halda með Copplehouse Colts!