Jóhann Möller frá FH í Val Siglfirðingurinn Jóhann Möller hefur yfirgefið herbúðir FH og gert samning við nýliða Vals frá Hlíðarenda. Jóhann gekk í raðir FH frá ÍBV þar sem hann fékk ekki mikið að spila. Hann var á sínum tíma einn atkvæðamesti markaskorarinn í neðri deildunum og skoraði t.a.m. tólf mörk sumarið 1998 og átta mörk sumarið áður. Jóhann og KS urðu 3. deildarmeistarar leiktíðina 1997. Hann er sonur hins skelegga þingmanns, Kristjáns Möller og var valinn kynþokkafyllsti knattspyrnumaður landsins á gras.is. Jóhann spilaði lykilhlutverk hjá Loga Ólafssyni þegar FH náði Evrópusæti árið 2001. Nú í sumar lék Jóhann lítið og er því skiljanlegt að þessi kröftugi framherji vilji fá að leika meira. Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir Valsmenn og munu þeir koma sterkir til leiks næsta sumar með ungt og sterkt lið.

FH-ingar hafa þurft að ganga í gegnum mikla blóðtöku að undanförnu. Hinn ungi Emil Hallfreðssyni gæti verið á leið í norska boltann og lögfræðineminn Benedikt Árni Egilsson, ungur varnarmaður sem lék í vörn FH á síðustu leiktíð, hefur skipt yfir í Stjörnuna í Garðabæ. Síðast en alls ekki síst hefur einn besti leikmaður FH, reynsluboltinn Hilmar Björnsson, horfið á braut alla leið í Vesturbæinn þar sem hann mun leika fyrir íslandsmeistara KR á nýjan leik. Það verður því erfitt verkefni fyrir nýráðinn þjálfara FH, Ólaf Jóhannesson, að púsla saman liðinu.