Sergei Rachmaninov Þar sem ég er mikill unnandi klassískrar tónlistar fannst mér um að gera að fjalla stuttlega um einn mesta snilling hljómborðsins og mitt uppáhalds tónskáld, Sergei Rachmaninov.

Sergei Rachmaninov var ekki aðeins einn besti píanóleikari 20. aldarinnar heldur einnig síðasti fulltrúi rússnesk-rómantísku stefnunnar, sem Tchaikovsky og Rimski-Korsakov eru helstu fulltrúar fyrir.
Fjölskylda Rachmaninovs var upphaflega auðug en lenti í fjárhagserfiðleikum vegna eyðslusemi föður hans og álagið í kjölfar þess leiddi loks til skilnaðar foreldranna. Árið 1885, eftir fyrsta námstímabil Rachmaninovs við tónlistarháskólann í Pétursborg var hann sendur til að læra á píanó hjá hinum stranga kennara Nikolai Zverev, en reglur hans kröfðust þess að píanóæfingar drengsins höfðust klukkan sex á hverjum morgni. Rachmaninov bjó heima hjá Zverev og það gaf honum tækifæri til að hitta virta tónlistarmenn eins og Anton Rubinstein, Aron Arenski og þann merkasta, Tchaikovsky, á samkomum síðdegis á sunnudögum.
Árið 1888 hóf Rachmaninov að sækja kennslustundir í tónsmíðum hjá Tanejev og Arenski og vaxandi mikilvægi þeirra fyrir hann í tónsmíðum leiddi til samningsslita við Zverev. Áður en hann útskrifaðist samdi hann vinsæl verk, eins og hinn tilfinningaríka 1.píanókonsert, síðan Trio élégiaque nr.1 og hina ofurrússnesku Tchaikovsky-legu einþáttungsóperu, Aleko (sem var útskriftarverkefnið hans og fékk hann hæstu einkunn fyrir).

Glæsilegur ferill Rachmaninovs var um það bil að hefjast og árið 1892 samdi hann eitt af sínum vinsælustu verkum, Prelúdíu í cís-moll, en flutningur verksins þegar það var klappað upp átti eftir að verða tónskáldinu hvimleitt skylduverk. Fimm árum síðar varð flutningur á metnaðarfullri 1.sinfóníu hans algjört klúður, hugsanlega vegna óviðunandi stjórnar Glazunovs (talið er að hann hafi mætt drukkinn), og Rachmaninov lagðist í þunglyndi. Þunglyndi hans var þó læknað þremur árum seinna með dáleiðslu og árangurinn af endurheimtu sjálfstrausti Rachmaninovs var hinn glæsilegi og sívinsæli 2.píanókonsert.

Næstu 15 árin var hann mjög afkastamikill og mörg stórvirki litu dagsins ljós eins og 2.sinfónían (1906-7) og 3.píanókonsertinn árið 1909 (hreinlega magnað verk og er talinn er einn erfiðasti píanókonsert sem saminn hefur verið) og svo Klukkurnar (1913), kórsinfónía sem byggist á ljóði eftir Edgat Allan Poe.
Rachmaninov tók sér nokkurt hlé frá tónsmíðum en þegar hann og flölskylda hans yfirgáfu Rússland og fluttust til Bandaríkjanna í kjölfar byltingarinnar árið 1917 ýtti ábyrgðin sem fylgdi rekstri heimilis honum út á braut sem alþjóðlegur tónleika-píanóleikari.

Þegar Rachmaninov sneri sér aftur að tónsmíðum árið 1926 með 4.píanókonsernum bentu neikvæð viðbrögð gagnrýnenda til þess að hann hefði glatað neistanum. Á fjórða áratug 20.aldarinnar endurheimti hann fyrri dýrð með Tilbrigðum við stef eftir Corelli (hans síðasta einleiksverk fyrir píanó), Rapsódíu við stef eftir Paganini (fyrir píanó og hljómsveit) þar sem hann kom fram með mikla skerpu og þéttni í túlkun, og síðan 3.sinfóníunni sem hann lauk við árið 1936. Síðasta tónsmíð sem hann lauk við voru Sinfóníudansar sem sýnir ekki aðeins áhuga hans á miklum hljómi hljóðfæranna heldur teygir sig einnig aftur í tímann til að endurvekja hina dáðu tónum rétttrúnaðarkirkjunnar í heimalandi hans.

Rachmaninov lést úr krabbameini á heimili sínu í Beverly Hills árið 1943, aðeins fjórum dögum fyrir hans sjötugasta afmæli.


Heimildir:
Sígild tónlist – John Stanley