Þýska tónskáldið Carl Maria von Weber fæddist árið 1786. Tónlistarnám hans var nokkuð slitrótt vegna þess að faðir hans stjórnaði farandleikhúsi sem sýndi óperur en það hafði þá kosti að Weber fékk allt sem snerti óperur beint í æð. Hann var þó um tíma í læri hjá Michael Haydn, sem var bróðir Joseps Haydn og var aðeins 13 ára gamall er hann samdi óperuna . Silvana sem hann endursamdi síðar. 16 ára kom hann fram með aðra óperu og aðeins 17 ára að aldri hlaut hann stöðu hljómsveitarstjóra þar sem Wroslaw í Póllandi er nú.Ungur aldur hans spillti að vísu örlítið fyrir annars kröftugri leihússtjórn.

Weber réði sig seinna í vinnu hjá hertoga nokkrum en þegar sá sagðist ekki lengur hafa ráð á hljómsveit lenti Weber í slagtogi með bróður hertogans og seig þá tímabundið á ógæfuhliðina.
Heppnin var aftur með Weber árið 1813. Þá fékk hann stöðu leikhússtjóra í Prag. Þar sýndi hann mikinn metnað í óperuflutningi. Weber var þjóðernissinni og tefldi fram svokölluðum þýskum óperum (sem hann að vísu kaus að kalla Söngleiki eða á þýsku Singspiel) á móti hinum ítölsku óperum.

Með Galdraskyttunni árið 1821 vann Weber stórsigur. Sú ópera sameinar hið barnalega og tilfinninganæma og hið yfirnáttúrulega í þýskum þjóðsögum og er yfirleitt nefnd fyrsta rómantíska óperan. Hún fjallar um unga skyttu sem neyðist til að leita á náðir ills anda vegna þess að hann á erfitt með að hitta í mark. Að öðrum kosti fær hann ekki að eiga stúlkuna sem hann elskar.

Þessa dagana er Galdraskyttan sýnd í Þjóðleikhúsinu og er það í fyrsta sinn sem hún er flutt hérlendis. Sýningin er samstarfsverkefni Sinfónúhljómsveitar unga fólksins (Ungfóníu), Sumaróperu og annara aðila. Í sýningunni eru 8 einsöngvarar, 50 manna kór, þrír dansarar, fjöldi aukaleikara og síðast en ekki síst situr Ungfónía i gryfjunni og leikur undir, en hana skipa 45 ungir hljóðfæranemar.
Aðalhlutverkin eru í höndum Kolbeins Ketilssonar, Elísu Vilbergsdóttur, Hrólfs Sæmundssonar og Hlín Pétursdóttur, stjórnandi er Gunnsteinn Ólafsson og leikstjóri Jón Gunnar Þórðarson.

Heimildir: Tónagjöf Fjölva, Reykjavík 1989