Nútímatónlist Þegar maður kynnist nútímatónlist almennilega verður maður hissa á því hve fáir fíla hana. Hér kemur mín tilraun til að opna huga fólks gagnvart skíkri tónlist.

Ef einhverjir efast um að ég sé hæfur til að skrifa grein þá kemur hér smá um mig. Þið þurfið ekki að lesa frekar en þið viljið.

——————
Ég byrjaði sem rokkari, spilaði á rafmagnsgítar. Seinna skipti ég yfir í rafbassa þar sem góðir vinir mínir sem voru allir þó nokkuð færir hljóðfæraleikarar voru með hljómsveit en vantaði alltaf bassaleikara. Nú við félagarnir urðum mjög metnaðarfullir og fórum að kynnast djass tónlist og seinna funki. Sá áhugi gerði það að verkum að ég fór að læra á kontrabassa samtíma rafbassanum. Þegar maður lærir á kontrabassa (sem fáir gera) er maður strax settur í öll samspil í skólanum, bæði djass og klassískt. Þannig að ég fór að spila klassíska tónlist og fór að fíla hana í botn. Seinna fór ég svo að hlusta á óperur líka og kafaði djúpt í þær. Nú er ég að kynna mér nýrri tónlist.

Hvað hef ég gert mér til frægðar?

Svo sem ekki mikið
…en við félagarnir stofnuðum band sem kallaðist Funkmaster 2000,
…við unnum besti bassaleikarinn, besti hljómborðsleikarinn og besti gítarleikarinn í Músíktilraunum undir nafninu Mímir.
…Ég hef spilað með Sinfoníuhljómsveit Íslands og Konunglegu óperuhljómsveitinni í Kaupmannahöfn (þar sem ég bý núna)
——————

Ég er í hljómsveit sem starfar á sumrin og kallast Kammersveitin Ísafold (www.isafold.net). Það sem við spilum er ótrúlega spennandi og síðasta sumar fórum við hringinn í krinugm landið. Á litlu stöðunum komu mjög fáir en þeir sem komu voru virkilega hrifnir og fannst skemmtilegt hvað prógrammið hefði verið fjölbreytt. En ég vil sem sagt vekja meiri áhuga á nýrri tónlist og opna hug fólks fyrir henni.

En fyrir sumum er nútímatónlist bara tónar sem gætu alveg eins verið tilviljanakennt rugl. Það sem greinir nýja tónlist frá gamalli er laglínan. Laglína er eitthvað sem tónskáld í dag sækjast ekki eftir, ekki á sama hátt og gömlu meistararnir.

Það er gildra númer 1. að fara á tónleika með nýrri tónlist og búast við laglínum. Maður þarf að stilla sig inná að hlusta eftir öðrum atriðum

Þau geta t.d. verið

- Andrúmsloft verksins

Verk eftir t.d. minimalísku tónskáldin, Arvo Pärt, Phillip Glass og John Adams eru mjög dáleiðandi og með hugleiðslubrag.

Verk eftir Steve Reich (sem er líka minimalisti) hafa stórborgarhljóð og stórborgarbrag og oft á tíðum funkí grúv.

Gubaidulina skrifar tónlist sem er mjög dramatísk og hefur hvert verk mörg mismunandi andrúmsloft.

- hljóðin sem slík

Tónskáld í dag eru mjög upptekin af hljóðum. Ef maður spáir í því þá eru hljóðfæri “úreltur” miðill en þar sem manneskjur spila á þau þá halda þau gildi sínu. Tölva getur samt gert öl hljóð og nánast öll menntuð tónskáld hafa farið í gegnum bylgjufræði og lært að búa til hljóð með tölvu. Þeim finnst því mjög gaman að reyna að búa til ný hljóð með gamaldags hljóðfærum.

- hvaða hljóðfæri gera hvaða hljóð

Munurinn að hlusta á nútíma tónlist á geisladisk og lifandi tónlist er gígantískur. Maður áttar sig ekki á hvaða hljóð þetta eru fyrr en maður hefur sjónræna þáttinn líka og það hjálpar að skilja.

- Kynna sér áður

Tónlist frá 20.öldinni sem er nú þegar orðin sígild hefur verið greind sundur og saman og til eru margar bækur um efnið. Oft getur það gefið manni nýja sín á tónlistina að hafa kynnt sér verk áður.

- Heimspeki

Þegar maður hefur kynnt sér verk kemur oftar en ekki í ljós að á bak við það liggur ádeila eða heimspeka að einhverri sort og það dýpkar skilninginn og nautnina að hlusta á það.

- Fjölbreytileiki

Að lokum vil ég segja að nú eru svo margar aðferðir sem tónskáld nota og allt er leyfilegt sem þýðir að maður verður að vera opinn fyrir að hlusta. Það er ekki hægt að dæma alla nútímatónlist út af einni tónleikareynslu.

Ef ég á að mæla með einhverju myndi ég benda byrjendum á að byrja á minimalisku tónskáldunum. Þeir eru nær gömlu meisturunum í aðferðum. Síðan myndi ég mæla með James McMillan sem reynir að höfða til fjöldans án þess að skerða gæði.

Takk fyrir mig!

Kontri