Ég hef verið á höttunum eftir skógarketti í allt sumar en allir auglýstir kettlingar virtust renna út eins og heitar lummur. Mér hefur alltaf þótt miður að ekki hafi komist sá siður á hérlendis að fólk greiði fyrir gæludýr. Kannski er einmitt núna tækifæri til að koma á slíkri hefð því eftirspurnin virðist meiri en framboðið. Ég er ekki að tala um einhverja háa upphæð, kannski nokkur þúsund. Kannski ef fólk þarf að greiða fyrir dýrin sín tekur það ábyrgari ákvarðanir. Það er til dæmis sárt að fólk hendi út köttum fyrir sumarfríið en fái sér svo bara nýja að hausti.
Ég held einnig að kattaeigendur gætu notið góðs af skráningu allra katta og leyfisveitingum frá bæjum og borg fyrir kattahaldi. Auðvitað vil ég að fólk fái leyfi fyrir sínum köttum en mér finnst vel þess virði að borga lágt ársgjald fyrir leyfið. Hugsanlega gæti bærinn eða borgin niðurgreitt geldingu á móti. Þetta gæti leitt til ábyrgara kattahalds.