Kettir reiða sig á sjón og heyrn til að finna bráð og hafa jafnframt góða nætursjón. Þeir hafa stórt sjónsvið og hafa mjög gott fjarlægðarskyn. Menn hafa þó betra fjarlægðar- og stærðarskyn vegna þarfar þeirra til að meðhöndla hluti. Aðalástæða þess hve kettir sjá vel í myrkri er stærð ljósopsins í auganu. Stór ljósop hleypa meira ljósi til sjónhimnu. Því stærra sem ljósopið er því stærri verður augasteinninn að vera. Kettir hafa stærri augasteina en menn og eru margir hverjir náttfarar t.d. gaupan sem hefur afar stórt ljósop. Ljósopið virkar eins og gluggi á augað, opnast og lokast til að ákveða hve mikið ljós skal komast í gegn. Í myrkri opnast það til að hleypa sem mestu ljósi inn en í birtu lokast það til að vernda sjónhimnuna. Ljósop katta geta opnast mun meira en okkar mannanna. Hins vegar sjáum við betur í mikilli birtu.
Húskettir og allir minni kettir hafa kringlótt ljósop þegar það er opið en þegar það minnkar verður það mjó lóðrétt rifa. Í öllum stærri köttum er það kringlótt og minnkar í litla punkta í birtu. Margir hafa eflaust tekið eftir því að augu katta glampa í myrkri. Þetta stafar vegna lags bak við sjónhimnuna, glærvoðinni sem endurkastar ljósi. Í myrkri eykur þetta ljósnæmni og þegar ljós fellur á augun í myrkri lýsa þessir endurkastsfletir.
En sjá kettir í lit? Allavega ekki jafnvel og við mennirnir enda skerðist nætursjónin við meiri litasjón. Kettir sjá þó ekki í svarthvítu heldur greina þeir suma liti frá öðrum. Kettir hafa fleiri stafi í augunum en við og færri keilur. Þetta er ein ástæða þess að kettir sjá betur í myrkri en vegna hversu fáar keilur eru til staðar sjá þeir ekki jafnvel í lit og menn.
Þetta er þó ekki staðfest og getur í raun engin sagt hvernig kettir sjá í raun og veru. Flestir vísindamenn hallast á það að kettir sjá takmarkaðan lit. Kannski eitthvað í líkingu við það sem rautt/grænt-litblindur maður mundi sjá