Sæl Hugarar.

Jæja nú lét ég loksins verða af því að kaupa mér alminnilegt hús. Ég fæ það afhent eftir rúmlega viku en hef búið hjá foreldrum mínum. Auðvitað fylgdu allar kisurnar með, Múddi, Snælda og Afródíta, og líf þeirra breytist úr því að vera innikettir í það að vera útikettir, því foreldrar mínir búa upp í sveit þar sem eru engir bílar eða aðrar hættur. Afródíta heyrnarlausa fékk líka að fara út. Það eru 3 kettir fyrir hjá mömmu en það hafa verið litlir sem engir árekstrar.

Þegar Kolur hennar mömmu sá Afródítu í fyrsta skipti þá fékk hann áfall. Hefur líklega aldrei séð annan eins kött, hvítan, loðinn og með enga virðingu fyrir kisureglum. Hann gjörsamlega spændi út um gluggann og hrinti öllu niður í leiðinni. Núna er hann að jafna sig eftir þetta sjokk. Afródíta blómstrar heima hjá foreldrum mínum, húsið er stórt og spennandi umhverfi úti við. Hún labbaði um húsið eins og hún ætti það frá fyrsta degi. Hún er orðin miklu blíðari og vill alltaf láta taka sig upp og klappa. Og þar kom í ljós kostur heyrnarlausra katta. Þeir eru miklu aðlögunarhæfari heldur en heyrandi kettir. Afródíta var ekki vitund hrædd í flutningnum og naut sín í bílnum því það er titringur í honum og hún elskar titring. Það er sveitabær fyrir ofan foreldra mína og hún hefur farið þar í heimsókn, þar er bara gamall og geldur hundur. Það virðast bara öll dýr vera logandi hrædd við hana því þau skilja að hún er ekki venjuleg, hún hegðar sér alltaf við önnur dýr eins og hún sé ekki hrædd við þau, og dýr verða logandi hrædd við það.

Annars hefur hún svo sem ekkert farið á flakk, hún fer bara stuttar ferðir kringum húsið og svo kemur hún inn, því hún vill alltaf vera í kringum fólk. Þetta er svo sannarlega dásamlegur köttur og sönnun þess að heyrnarlausir kettir geta verið góðir kettir.

Heiðrún og dýragarðurinn upp í sveit