Kettlingur fæddur Eins og þeir vita sem hafa fylgst með sífelldum hjálparbeiðnum mínum á korkunum, þá tók ég að mér litla flækingskisu fyrir rúmum mánuði síðan. Svo kom það í ljós að kisa var mjög líklega kettlingafull en þá var ég þegar búinn að panta tíma í bólusetningu þann 10. og taka úr sambandi þann 31. Hún fór svo til dýralæknisins þann 10. og fékk þann úrskurð að það væru 80% líkur á að hún væri kettlingafull en hann vildi samt taka hana úr sambandi og það sem fyrst þannig að aðgerð var flýtt fram á 17.

Kisa var hins vegar á öðru máli. Hún var reyndar búin að vera algjört skass eftir ferð sína til dýralæknisins en var eiginlega búin að jafna sig á því á laugardaginn. Í gær var hún hins vegar verri en nokkurn tímann og búin að urra á mig allan morguninn ef ég snerti við henni. Ég fór svo út um 2 leytið og skildi við hana sofandi uppí rúmi undir sæng. Þegar ég kom til baka kl. 3 var bleytublettur í gólfteppinu og ég hélt fyrst að hún hefði pissað í það. Svo sá ég að það var blautt í sænginni líka þar sem hún hafði legið og smá blóð og líka á öðrum stað á gólfinu. Kisa lá hins vegar í bæli sínu og lét sér fátt um finnast.

Um fjögurleytið staulaðist mín frammá klósett og sýndi svo þvílíkan töffaraskap að stökkva beint upp á sófabak þegar hún kom aftur en kom svo og kúrði hjá mér í ca. hálftíma. Þegar ég þurfti að standa upp urraði hún þvílíkt en dróst svo í bæli sitt.

Um sexleytið fór hún í kassann sinn og lá þar í 3 korter. Svo fór hún á klóið og þá aftur í bælið sitt undir glugganum. Hálftíma seinna eða um 19:15 kom hún til mín og lagðist við lappirnar á mér. Ég setti sængina þar handa henni. Um 19:50 tók ég eftir því að hún var byrjuð að rembast og 19:58 fæddist kettlingur. Hún sleikti hann svo mikið að ég fékk varla að sjá hann. Svo kom fylgjan stuttu seinna og hún át hana strax og beit á naflastrenginn.

Hún var nú ekkert voða góð við “fyrsta” til að byrja með og hálf labbaði á honum en svo fór hún að róast. Milli 9 og 10 lá hún með “fyrsta” í fanginu og faðmaði og kyssti. Það var þá sem ég tók myndina. Það sést kannski ekki vel en “fyrsti” liggur við hausinn á henni. Hann er alveg eins á litinn.

Um hálfellefu fór hún aftur að ókyrrast en svo gerðist ekki neitt. Núna er klukkan orðin 10 að morgni og ekkert í gangi nema hún er alltaf að þrífa “fyrsta” sem ætti líklega að heita “eini” :)