Ég á tvo fressi, annar er brúnbröndóttur og hvítur, geldur, eyrnamerktur, ormahreinsaður og bólusettur, hann er 20 mán. Hinn er rauðgulbröndóttir og hvítur(tabby), búinn að fá fyrstu sprautu og ormahreinsaður, hann er tæpra 4 mán. Báðir eru þessir strákar rómaðir fyrir einstaka persónuleika, þrifnir og hlýðnir og báðir eru þeir heimilislausir.
Ég lenti í erfiðri aðstöðu og missti húsnæðið og nú vantar mig að finna einhverja með stórt hjarta, sem getur tekið þá með opnum faðmi inn á heimili sín, þeir þurfa ekki að fara á sama heimili, en þeir þurfa að eignast heimili sem fyrst. Sá eldri er búinn að vera í minni eigu frá fæðingu, hann er úr svo kallaðri Bröndu-ætt í Grímsnesi og ég þekki persónulega móður hans, föðursystur, ömmu, bræður og systur og svo má lengi telja. Aldrei nokkkurn tímann hefur hann hvæst, urrað eða klórað á mannfólkið og lítil börn hafa haldið honum á skottinu og hann hefur aðeins beðið rólegur eftir að þau myndu sleppa honum. Hann er stór og glæsilegur og vanur hundum, börnum og köttum, þótt vissulega sé hann hrifnastur af mannfólkinu. Hann hefur einstaklega sterkar taugar og er afar aðlögunarhæfur, það eina sem ég hef vitað að hræði hann er ryksugan og hárþurrkarinn.
Sá yngri hefur verið hjá mér síðan hann var 8 vikna. Hann er einstaklega fallegur og kelinn, en er með lítið hjarta og lítið gefinn fyrir læti. Hann gefur sér tíma til að kynnast fólki en þegar fólk hefur svo unnið traust hans, þá er hann utan í manni og vill sofa í hálsakotinu og liggja í fanginu og láta klóra sér á magann.
Þessir strákar eru með yndislegustu og einstökustu köttum, sem ég hef kynnst og ég hef kynnst þeim mörgum. Er einhver þarna úti sem getur svarað þessu neyðarkalli???