Mig langar aðeins að minna ykkur á starfsemi Kattholts hins ágæta Kattavinafélags. Þar eru yndislegir munaðarleysingjar á öllum aldri, sem þurfa að mæta sorglegum örlögum, vegna þess að fyrri eigendur gátu eða vildu ekki af einhverjum aðstæðum veita þeim verðskuldaða athygli. Eins og er Kattholt fullt af köttum, bæði af óskilaköttum og hótelgestum, sem allir hljóta faglega og góða meðferð og óskilakettirnir mæna öfundaraugum á hótelgestina, þegar þau fara til sína heima. Kattavinafélagið, þarf á tímum eins og núna, þegar kettlingar og kettlingafullar læður hópast inn í Kattholt að leggja mikið fjármagn í fóður og nauðsynjar og oft erfitt að ná endum saman. Sem betur fer eru það margir kattavinirnir sem gerast meðlimir og vissulega er stoð af þeim. Dýralæknar og gæludýraverslanir leggja oft Kattavinafélaginu lið, sem er ómetanlegt. En alltaf má þó Kattholt við meiri stuðning, til að framfleyta félaginu og starfsemi þess, húsnæðið hefur t.d. þurft að vera óklætt að utan í mörg ár, svo hægt sé að beina fjármagninu, sem til er að uppbyggingu innan dyra. Kattholt skortir líka ávallt dagblöð og kjörið að leggja leið sína þangað með gömlu dagblöðin og endurnýta þá á þann hátt.
Kattavinafélagið er einnig með basar, þar sem hægt er að fá vel með farnar, notaðar flíkur á alla fjölskylduna fyrir nokkra hundraðkalla og eitthvað er til að bæta í innbúið.
Kattavinafélaf gegnir mikilvægu og margþættu hlutverki, sem oft hlýtur ekki verðskuldaða viðurkenningu og þætti mér forvitnilegt hvernig ástandið væri, ef starfsemi þessi væri ekki til staðar.
Munum endilega að leggja litlu,ferfættu vinum okkar lið og þau munu tvímælalaust þakka fyrir sig með vingjarnlegu mali og einlægum augum.