Þá er sumarið komið og margur eigandinn vill óður hleypa köttunum sínum út í sólina og leyfa þeim að njóta náttúrunnar eins lengi og unnt, sem er í sjálfu sér gott og blessað…..séu réttu aðstæður fyrir hendi. Ég á sjálf fresskött sem er ársgamall og starfa við umhirðu dýra og dag hvern blöskrar mér kæruleysi dýraeigenda, jafnt sem ég kætist yfir umhyggju þeirra og alúð, en það er þetta með kæruleysið sem fer í mig.
Núna er að ganga í garð sá tími þegar hver læðan á fætur annarri gýtur fallegum, litlum og sætum kettlingum. Hversu margir kettlingar eru velkomnir og hversu margir þeirra mega eiga von á að geta komist á gott heimili, þar sem þeir munu búa öryggir og við gott aðhald til æviloka?
Margar læður, sem ekki eru notaðar til ræktunar eignast kettlinga, sem ekki eru velkomnir í heiminn, sumar læður gjóta nokkrum sinnum á ári og er það hrein og ein misþyrming.
Ég mæli með því, þar sem sumarið er að ganga í garð og menn að ræstu vetrardrungann úr húsum, að farið verður í ferð til dýralæknisins. Það þarf að bólusetja og ormahreinsa ketti reglulega og mikilvægt að halda því við, því ekki nægir að fara með köttinn einu sinni á ævinni og aldrei meir.
Margir kettir eru að fara út hárum í árstíðaskiptunum og vilja gjarna fá aðstoð við það, með smá kembingu, sem einnig hlífir kattaeigendum við umfram magn hára í húsgögnin.
Læður þær, sem ekki eru notaðar til undaneldis þarf ýmist að taka úr sambandi eða gefa pilluna og það þarf að gefa pilluna reglulega.
Fressketti þarf að taka úr sambandi og ef hann er ógeltur, þá er það tillitsemi og vel metið að þeim sé haldið inni við, þegar allar læðurnar eru breima, því slíkt getur líka egnt til slagsmála meðal fresskattana, þar sem þeir reyna að eigna sér læður og yfirráðasvæði og því er það fressunum í hag að halda þeim inni við, þegar mesta tímabilið gengur yfir.
Meðan eigendurnir fá sér sumarklippingunar, þá er upplagt að snyrta klær kattana, hreinsa á þeim eyrun og skoða í þeim tennurnar og augun, sem ber að gera reglulega.
Því ekki er nóg að gefa kettinum og ryksuga sófann, það þarf að sinna kettinum vel og vandlega og bera virðingu fyrir honum, sem meðlimi í fjölskyldunni.
Þeir kattaeigendur, sem láta ketti sína ganga lausa, ættu að sjá til þess að þeir séu vel merktir, þá komast þeir ábyggilega til skíla, ef þeir týnast og minna hætta er á að meindýraeyðir veiði hann og rukka eigendurna um nokkra þúsundkalla. Ketti ber að eyrnamerkja og muna að breyta skráningunni ef eigendaskipti verða, einnig eiga þeir að vera með ól, kyrfilega merktir með nafni, síma og/eða heimilisfangi eigenda.
Verum til fyrirmyndar og tökum okkur á í umhirðu kattanna okkar, sem eiga það vel skilið.