Mig langar að heyra ykkar skoðun á máli sem ég er lentur í.
Ég á kött, sex ára gamla læðu. Hún hefur alla sína ævi búið í blokkaríbúð og fer aldrei úr. Persónulega er ég á móti því að hafa ketti í blokk nema þeir komist út en ég hafði lítið að segja um það þegar kötturinn kom á heimilið. Þá var ég 14 ára. Ég bý í heimahúsi og nú vill mamma að kisa fari, hún er komin með nóg af henni. Af hverju? Vegna þess að hún klórar nýja sófasettið. Þess vegna vill hún losna við hana sem fyrst. Þessi kisa er mikill vinur minn. Það kemur ekki til greina hjá mér að láta “svæfa hana” en ég er viss um að það tæki hana langan tíma að aðlagast nýju heimili, auk þess sem ég myndi sakna hennar. Hvað á ég að gera? Höfum ég og kisa engan rétt? Ég er skráður eigandi hennar en það virðist ekki mögulegt að hún búi hérna lengur. Mér finnst þetta allt mjög óréttlátt, og hlægilegt að finnast vænna um sófasett en kött, þar sem þetta er yndisleg kisa.