Hin árlega ferð til Dagfinns Ég fékk sent sms frá Dagfinni til að minna mig á að nú var kominn tími á hina árlegu bólusetningu og ormahreinsun.

Í dag hringdi ég svo og pantaði tíma fyrir stelpurnar. Ok, ekkert mál, fékk tíma samdægurs. Svo fór ég að hugsa út í þetta, get ég farið með þær tvær ein? Þær eru orðnar of stórar til að passa saman í búrið sitt og þótt þær myndu passa myndi það nú bara enda í blóði, svita og tárum. En ég ákvað að reyna á þetta.

Hálftíma fyrir tímann fór ég út og kallaði á þær, fyrst létu þær ekki sjá sig svo ég labbaði út í garð og þar voru þær báðar.
Ég náði í Nóru sem vældi á mig, greinilega ekki sátt við að ég ætlaði með hana inn. Ég tróð henni inn í búrið og lokaði á eftir, nú kom erfiði hlutinn, að veiða Möllu. Ég fór út og kallaði, hún kom hlaupandi, en hélt sér alltaf passlega langt frá svo ég myndi nú örugglega ekki ná henni. En þá gerði hún þau mistök að fara inn! Ég lokaði þá stofuhurðinni svo hún var innikróuð. Ég ákvað þá að betra væri að hafa Möllu í búrinu og Nóru í beisli. Ég hleypti þá Nóru út og reyndi að troða á hana beislið, það gekk ekkert of vel en mér tókst það á endanum. Núna veiddi ég Möllu og reyndi að setja hana í búrið, en nei þakka þér fyrir, þangað ætlaði hún ekki! Hún hvæsti og urraði á mig eins og brjáluð og náði nokkrum sinnum að sleppa áður en mér tókst ætlunarverk mitt.

Nú setti ég skvísurnar út í bíl og hélt af stað til Dagfinns. Nóra var laus í aftursætinu og skoðaði allt en Malla lá í hnipri í búrinu, með skelfingarsvip. Þegar ég loksins náði að koma þeim til læknisins hélt ég nú að þetta yrði allt í lagi. Neinei, var þá ekki bara stór og forvitinn hundur þarna sem glápti á stelpurnar sem urðu að sjálfsögðu skíthræddar og hvæstu eins og brjálaðar. Reyndar fannst mér hálf dónalega af hundaeigandanum að halda hundinum ekki í burtu, hann var t.d. alveg upp að búrinu hennar Möllu að nusa af henni!

Við fengum að fara inn og þær fengu sinn skammtinn hvorn af lyfjum, Nóra var frekar fúl en Malla var í sjokki og sagði ekki neitt.

Nú héldum við heim á leið. Heimleiðin gekk vel fyrir sig, þótt að Nóra vildi endilega að ég keyrði útaf, en hún var alltaf að labba í kjöltunni minni. En þetta er svo sem ekki löng leið þannig að ég leyfði henni það.

Í heimreiðinni sleppti ég svo Nóru úr beislinu og hljóp hún í burtu, frelsinu fegin. Svo hleypti ég Möllu úr búrinu og hún fór sömu leið, jah eða raunar akkúrat öfuga leið.

Nú vona ég bara að þær nái að fyrirgefa mér bráðlega. :)

Myndin er af Nóru bollu
Just ask yourself: WWCD!