Mía litla Það eru margir búnir að senda inn greinar um kettina sína og mér finnst svo gaman að lesa þær. Svo mér datt í hug að skrifa grein um köttinn minn, Míu.

Fyrir 3 árum fór ég í heimsókn til vinkonu minnar sem var nýbúin að fá kettling frá nágranna sínum, þetta var systir Míu, Bella. Auðvitað langaði mig líka í svo við fórum í heimsókn til að skoða kettlingana. Á meðan voru foreldrar mínir hjá vinkonu minni. Konan sem átti mömmuna var mjög góð og kunni gott ráð til að fá samþykki frá foreldrunum :P Hún lánaði okkur taupoka sem við settum kettlingana (sem voru 4) í hann og fórum með þá yfir í næsta hús til að heilla foreldra mína. Af því við erum mikið kattafólk var auðvelt að fá þau til að samþykkja, enda voru þessir kettlingar algjör æði!

Við völdum Míu af því hún var með löng hvít hár úr eyrunum og okkur fannst það svo sætt. Hún er lítil, grá og mjög loðin, mjög mikið eins og norskur skógarköttur þótt hún sé blönduð. Fyrst þegar Mía kom heim var hún smá stund að venjast nýju umhverfi en hún fékk að sofa í saumakörfunni hennar mömmu og líkaði það vel, alveg eins og Mía litla gerði í múmínálfunum. Það var samt ekki þess vegna sem hún var nefnd Mía, bara skemmtileg tilviljun.

Mía er mjög sérstakur köttur, allavega miðað við hina kettina sem ég hef átt og þekkt. Hún er mikil félagsvera og vill helst alltaf vera þar sem fólk er. Samt er hún feimin og hrædd við flesta gesti nema þá sem hún velur sérstaklega til að vera vinir hennar. Hún er mjög gáfuð og veit alveg hvað má og hvað má ekki og líka hvað hún þarf að gera til að fá athygli. Hún er líka frekasta lífvera sem ég hef séð og hún fær það sem hún vill! Einu sinni átti hún sérstakan stað í sófanum og ef einhver settist þar þá annaðhvort starði hún á hann þar til hann fór eða kom sér fyrir ofan á honum! Svo er hún líka matvönd og ef hún fær ekki rétta þurrfóðrið étur hún ekki og fer í fýlu.

Fyrir einu ári flutti vinkona mín sem á Bellu (sem ég sagði frá fyrr í greininni) í húsið við hliðina á mér. Af því þær mundu ekki eftir hvor annarri urðu þær ekki bestu vinkonur og fyrst var mjög erfitt fyrir þær að sættast þótt það hafi eitthvað lagast núna. Í húsinu hinu megin við hliðina á mér býr geldur fress sem heitir Moli og er voðalega vitlaus (aðaláhugamál hans er að veiða rusl :P) Svo getur maður stundum séð þessa þrjá ketti í röð, hlaupandi á eftir hvort öðru í einhverri baráttu um svæði. Þá getur maður ekki annað en hlegið.

Núna er ég farin á heimavist og er því lítið heima svo Mía er núna að gera útaf við foreldra mína með frekju. Hún er samt alltaf litla sæta kisan okkar svo það er allt í lagi :D



Kveðja, mia3